Erlent

Um­fangs­mikill gagna­leki frá Credit Suis­se

Árni Sæberg skrifar
Thomas Gottstein er bankastjóri Credit Suisse.
Thomas Gottstein er bankastjóri Credit Suisse. EPA-EFE/ENNIO LEANZA

Upplýsingar um viðskiptavini svissneska bankans Credit Suisse hafa litið dagsins ljós í umfangsmiklum gagnaleka. Um er að ræða um þrjátíu þúsund viðskiptavini sem eiga ríflega eitt hundrað milljarða franka í bankanum.

Lekinn kom frá ónefndum uppljóstrara innan bankans sem sendi þýska dagblaðinu Süddeutsche Zeitung upplýsingarnar. „Ég tel svissnesk lög um leynd bankaupplýsinga ósiðleg,“ er haft eftir honum. Süddeutsche Zeitung kannast eflaust margir lesendur við en blaðið átti stóran hlut í Panamaskjölunum svokölluðu.

Fjölmargir fjölmiðlar í mörgum löndum tóku þátt í að vinna úr gögnunum en að þessu sinni er enginn íslenskur miðill meðal þeirra. Credit Suisse hefur enga starfsemi hér á landi og því er ólíklegt að nöfn Íslendinga séu að finna í lekanum.

Einn fjölmiðlanna er The Guardian sem fjallar ítarlega um málið á vefsíðu sinni.

Vafasamir viðskiptavinir

Meðal viðskiptavinanna þrjátíu þúsund er að finna marga með óhreint mjöl í pokahorninu. Þar má nefna Ronald Li Fook-shiu, fyrrum yfirmann kauphallarinnar í Hong King sem sat í fangelsi um árabil vegna mútuþægni, Stefan Sederholm, sænskan forritara sem var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir mansal á Filippseyjum, og fólk með tengsl við hina ýmsu einræðisherra, meðal annars Ferdinand Marcos heitinn.

Þá er bankareikning Vatíkansins að finna í gögnunum en þau benda til þess að Vatíkanið hafi varið 350 milljónum evra í vafasamar fjárfestingar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×