Erlent

Milljónum sagt að halda sig heima vegna veður­ofsa á Bret­lands­eyjum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir og Gunnar Reynir Valþórsson skrifa
Rauð veðurviðvörun hefur verið gefin út vegna stormsins Eunice á Bretlandi.
Rauð veðurviðvörun hefur verið gefin út vegna stormsins Eunice á Bretlandi. Getty/Matthew Horwood

Milljónum manna á Bretlandseyjum hefur verið sagt að halda sig innandyra en von er á einu mesta óveðri síðari tíma. Óveðrinu, sem fengið hefur nafnið Eunice, geta fylgt vindhviður sem ná fjörutíu metrum á sekúndu.

Rauð viðvörun hefur verið gefin út fyrir Lundúnasvæðið og einnig suðaustur og austurhluta Englands. Áður höfðu slíkar viðvaranir verið gefnar út fyrir suðvesturhluta Englands og suðurhluta Wales. 

Hundruðum skóla hefur verið lokað, allar lestarferðir í Wales falla niður og herinn hefur verið settur í viðbragðsstöðu. Veðurfræðingar breska ríkisútvarpsins vara við því að Eunice gæti orðið versta óveður í þrjá áratugi. Rauðar viðvaranir eru sjaldgæfar á Bretlandseyjum. Ein var gefin út í nóvember í fyrra og þar áður árið 2018.

Eunice er annar stormurinn sem ríður yfir Bretlandseyjar í vikunni. Sá fyrri fékk nafnið Dudley en hann reið yfir hluta Skotlands, norðurhluta Englands og Norður-Írland. Stormurinn olli því að þúsundir heimila urðu rafmagnslaus. 

Rauðar veðurviðvaranir eru eins og áður segir mjög sjaldgæfar á Bretlandseyjum. Þegar slíkir stormar ríða yfir er talin mun meiri hætta á eignatjóni: Þök fjúki af húsum, rafmagnslínur falli til jarðar og tré rifni upp.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×