Innlent

Fremur hægur vindur á landinu í dag en bætir í á morgun

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Það er víða mikill snjór.
Það er víða mikill snjór. Vísir/Vilhelm

Fremur hægur vindur verður á landinu í dag, frost um allt land og éljaslæðingur norðaustantil.

Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands. 

Þar kemur einnig fram að á morgun muni smám saman bæta í vind. Víða hvassviðri og skafrenningur um landið sunnan- og vestanvert annað kvöld og dregur úr frosti á þeim slóðum.

Hæglætis veður og talsvert frost á Norður- og Austurlandi. Einnig er útlit fyrir að það hvessi allra syðst á landinu aðra nótt. 

Skil lægðarinnar sem veldur þessum vindi virðast lítið ná inná land sem er stór bót í máli að mati veðurfræðingsins.

Veðurhorfur á landinu

Fremur hæg austlæg átt og skýjað með köflum, en dálítil él við sjávarsíðuna N- og A-til. Austan 8-15 m/s S- og V-lands seint í kvöld. Frost 1 til 14 stig, kaldast inn til landsins.

Hvessir S- og V-til á morgun, austan 10-20 og allvíða skafrenningur annað kvöld, hvassast syðst, en lengst af hæg vindur og þurrt um landið NA-vert. Frost 0 til 20 stig, kaldast inn til landsins NA-lands.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag:

Hægt vaxandi austanátt, 10-18 m/s á sunnanverðu landinu undir kvöld og snjókoma með köflum eða skafrenningur, hvassast með ströndinni. Mun hægari og úrkomulaust að kalla fyrir norðan. Hiti um frostmark syðst, niður í 15 stiga frost í innsveitum nyrðra.

Á sunnudag:

Norðaustan hvassviðri og éljagangur, en slydda eða rigning syðst. Dregur úr vindi síðdegis og léttir til S- og V-lands. Mun hægari norðanátt og dálítil él um kvöldið. Frost 0 til 7 stig.

Á mánudag:

Vaxandi austanátt seinnipartinn með hvassviðri, slyddu eða jafnvel rigningu um kvöldið, en hægari og úrkomuminna nyrðra. Hlýnandi veður í bili.

Á þriðjudag:

Snýst í hvassa suðvestanátt með éljagangi, en þurrt að kalla eystra. Kólnandi veður.

Á miðvikudag og fimmtudag:

Útlit fyrir austlægar og síðar norðlægar áttir með éljum víða á landinu, einkum þó norðantil og talsverðu frosti.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×