Erlent

Tveir hand­teknir vegna gruns um að tengjast hvarfi á 22 ára konu í Ála­borg

Atli Ísleifsson skrifar
Mia Skadhauge Stevn var úti að skemmta sér á Jomfru Ane Gade í Álaborg á laugardagskvöldið, en ekkert hefur spurst til hennar síðan klukkan sex síðasta sunnudagsmorgun.
Mia Skadhauge Stevn var úti að skemmta sér á Jomfru Ane Gade í Álaborg á laugardagskvöldið, en ekkert hefur spurst til hennar síðan klukkan sex síðasta sunnudagsmorgun. Lögreglan í Danmörku

Lögregla í Danmörku hefur handtekið tvo 36 ára karlmenn vegna gruns um að tengjast hvarfinu á hinni 22 ára Mia Skadhauge Stevn. Ekkert hefur spurst til konunnar frá því að sást til hennar á öryggismyndavélum stíga upp í bíl í miðborg Álaborgar á Jótlandi snemma á sunnudagsmorgun, en málið hefur vakið mikla athygli í Danmörku.

Lögregla á Norður-Jótlandi segir í tilkynningu að mennirnir hafi verið handteknir á tveimur stöðum, annars vegar í Østervrå og hins vegar Flauenskjold, klukkan 11:20 að staðartíma í morgun. Báða staði er að finna norður af Álaborg.

Lögregla segir að upptökur úr öryggismyndavélum og ábendingar frá almenningi hafi komið henni á sporið. Mennirnir eru grunaður um að hafa banað konunni, en hún hefur enn ekki fundist.

Á öðrum þeim stað þar sem mennirnir voru handteknir fannst einnig dökkur bíll líkt og sá sem sást á öryggismyndavélum og konan steig upp í á götunni Vesturbrú í Álaborg klukkan 6:09 að staðartíma á sunnudagsmorgun. Á myndum mátti sjá að Mia Skadhauge Stevn átti um tíu sekúndna spjall við þá sem í bílnum voru, áður en hún settist upp í bílinn.

Vitað er að konan hafði verið að skemmta sér á Jomfru Ane Gade, gengið svo Borgergade til vesturs og svo Vesturbrú til suðurs þar sem hún settist upp í bílinn. DR segir frá málinu. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×