Fótbolti

Over­mars hættur hjá Ajax vegna dóna­skila­boða sem hann sendi sam­starfs­konum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Marc Overmars þarf að finna sér nýtt starf.
Marc Overmars þarf að finna sér nýtt starf. getty/Marcel ter Bals

Marc Overmars er hættur sem yfirmaður knattpyrnumála hjá Hollandsmeisturum Ajax eftir að upp komst að hann sendi samstarfskonum sínum hjá félaginu óviðeigandi skilaboð.

Ajax sendi frá sér yfirlýsingu í gær að Overmars hefði komist að þeirri niðurstöðu að hætta hjá félaginu eftir samtöl við stjórn þess og stjórnarformanninn Edwin van der Sar.

„Ég skammast mín. Í síðustu viku var mér bent á framkomu mína og hvaða áhrif hún hafði á aðra. Því miður áttaði ég mig ekki á því að ég hefði farið yfir strikið en mér var gerð grein fyrir því. Skyndilega fann ég fyrir mikilli þörf til að biðjast afsökunar,“ sagði Overmars sem gengdi starfi yfirmanns knattspyrnumála hjá Ajax í áratug.

„Fyrir einhvern í þessari stöðu er svona framkomu óásættanleg. Ég sé það núna. En það er of seint og sé engan annan kost í stöðunni en að segja af mér.“

Leen Meijaard, sem situr í stjórn Ajax, segir að enginn annar kostur hafi verið í stöðunni. „Þetta er dramatísk staða fyrir alla sem að þessu koma. Þetta er hræðilegt fyrir konurnar sem þurftu að glíma við þetta,“ sagði Meijaard. 

„Marc er besti yfirmaður knattspyrnumála sem við höfum haft og þess vegna gerðum við nýjan og betri samning við hann. En því miður fór hann yfir strikið og því var ekki möguleiki fyrir hann að halda áfram eins og hann gerði sér sjálfur grein fyrir.“

Overmars lék sjálfur með Ajax og varð Evrópumeistari með liðinu 1995. Hann lék seinna með Arsenal og Barcelona.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×