Fótbolti

Segir að Sævar fari gegn Vöndu í formannsslag hjá KSÍ

Sindri Sverrisson skrifar
Sævar Pétursson tók við sem framkvæmdastjóri KA árið 2011 en er á leið í formannsslag hjá KSÍ.
Sævar Pétursson tók við sem framkvæmdastjóri KA árið 2011 en er á leið í formannsslag hjá KSÍ.

Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri KA, ætlar að bjóða sig fram sem formaður Knattspyrnusambands Íslands á komandi ársþingi í næsta mánuði.

Þetta fullyrti Kristján Óli Sigurðsson í nýjasta þætti Þungavigtarinnar í dag.

Vanda Sigurgeirsdóttir tók við af Guðna Bergssyni sem formaður KSÍ á aukaþingi í október og hyggst sækjast eftir endurkjöri á ársþinginu sem fram fer 26. febrúar. 

Vanda var ein í framboði á aukaþinginu en nú virðist hins vegar ljóst að hún fái samkeppni um formannsembættið.

„Þetta verður staðfest á allra næstu dögum, jafnvel á næstu klukkustundum,“ sagði Kristján Óli í Þungavigtinni í dag.

„Spennið bara beltin. Það er að fara fram alvöru formannsslagur, eins og á að vera. Þú átt ekkert að labba inn í stærsta gigg fótboltans á Íslandi án þess að þurfa að hafa fyrir því,“ sagði Kristján Óli sem telur framboð Sævars, sem stýrt hefur málum hjá KA síðasta áratuginn, frábærar fréttir.

„Hann er mjög vel fallinn til að stýra þessu sambandi. Ég hugsa að Vanda sofi ekkert rótt í nótt. Þetta er nauðsynlegt fyrir hreyfinguna, að það sé samkeppni um þetta gigg,“ sagði Kristján Óli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×