Enski boltinn

Liverpool sagt ætla að landa Diaz um helgina

Sindri Sverrisson skrifar
Luis Diaz hefur fagnað fjölda marka fyrir Porto í vetur en virðist vera á leið til Liverpool-borgar.
Luis Diaz hefur fagnað fjölda marka fyrir Porto í vetur en virðist vera á leið til Liverpool-borgar. Getty/Diogo Cardoso

Forráðamenn Liverpool vinna nú að því að landa Luis Diaz, kantmanni Porto, áður en lokað verður fyrir félagaskipti á mánudaginn. Tottenham vildi fá leikmanninn en Liverpool virðist ætla að hafa betur.

Þetta fullyrðir meðal annars The Athletic í dag og Sky Sports tekur í svipaðan streng.

Diaz er 25 ára gamall landsliðsmaður Kólumbíu. Talið er að Liverpool þurfi að greiða um 60 milljónir evra, um 8,7 milljarða króna, auk viðbótargreiðslna að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. 

Það er nokkuð lægra en 80 milljóna evra verðmiðinn sem Porto var talið ætla að halda sig við, en klásúla er í samningi Diaz við Porto um að félagið verði að selja hann bjóðist það verð.

Diaz mun hafa verið í sigti margra af betri liðum Evrópu og Tottenham sótti fast að fá hann áður en janúar er úti.

Diaz er hins vegar sagður spenntari fyrir því að fara til Liverpool, sem hann mætti tvívegis í Meistaradeild Evrópu á þessari leiktíð með Porto.

Diaz er á sinni þriðju leiktíð með Porto og hefur skorað 14 mörk í 18 deildarleikjum í vetur, auk þess að skora tvö mörk í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Hann hefur skorað sjö mörk í 31 landsleik fyrir Kólumbíu eftir að hafa orðið markahæstur á Copa America síðasta sumar ásamt Lionel Messi, með fjögur mörk.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.