Um mánuður er síðan að Landspítalinn var færður á neyðarstig vegna mikils álags og hraðrar útbreiðslu kórónuveirunnar.
Í svörum frá spítalanum kemur fram að enn sé staðan þannig að ekki sé hægt að aflétta neyðarstiginu. Það verði í fyrsta lagi hægt í næstu viku. Ástæðan er fjöldi starfsmanna sem er í einangrun. Þeir eru nú tvö hundruð og nítján. Þar að auki hverfa sautján starfsmenn Klíníkinnar, sem starfað hafa á spítalanum undanfarið, á morgun aftur til fyrri starfa.
Þá hefur líka fjöldi starfsmanna spítalans verið í sóttkví undanfarnar vikur. Um helmingur þeirra hefur þó mætt til vinnu. Þetta á við um þá starfsmenn sem hafa verið einkennalausir.
Þá má búast við að með breyttum reglum um sóttkví og væntanlegum afléttingum samkomutakmarkana muni þeim fjölga sem greinast með veiruna sem getur haft áhrif á starfsemi spítalans.
Í svörum frá spítalanum kemur fram að staðan sé metin daglega og enn um sinn sé ekki tímabært að færa spítalann af neyðarstigi.
Í dag liggja þrjátíu og þrír sjúklingar með Covid-19 á Landspítalanum. Þar af eru tuttugu og þrír í einangrun með virkt smit. Á gjörgæslu eru þrír sjúklingar en þar af tveir í öndunarvél