Fótbolti

Hollenska marka­maskínan hefur rætt við bæði PSG og Barcelona

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Vivianne Miedema gæti verið á förum frá Arsenal.
Vivianne Miedema gæti verið á förum frá Arsenal. James Chance/Getty Images

Hollenska markadrottningin Vivianne Miedema hugsar sér til hreyfings. Hún spilar í dag með Arsenal í ensku úrvalsdeildinni en hefur rætt við bæði París Saint-Germain og Evrópumeistara Barcelona.

Hin 25 ára gamla Miedema verður samningslaus í sumar og hefur því hafið að skoða markaðinn. Hún segir dyrnar ekki vera lokaður í Lundúnum en hún vill vinna Meistaradeild Evrópu. Þó Arsenal sé sem stendur á toppi ensku úrvalsdeildarinnar þá vill hún meira.

„Á næstu vikum verð ég að fá ákveðna tilfinningu varðandi hvaða félag er rétt fyrir mig. Dyrnar standa þó enn opnar fyrir Arsenal,“ sagði Miedema í viðtali við AD í heimalandinu.

„Ég vil vinna Meistaradeild Evrópu, ég vil reyna að fá sem mest út úr ferlinum. Það þýðir að ég þarf að taka næsta skref. Ég er 25 ára svo ég er enn nokkuð ung en ég hef verið að spila í dágóðan tíma.“

„Næstu ár ættu að vera hápunktur ferilsins. Ég vil eyða þeim tíma þar sem metnaðurinn er sem mestur,“ sagði markadrottningin einnig áður en hún endaði á að hún væri ánægð hjá Arsenal og í Lundúnum.

Miedema hefur verið á mála hjá Arsenal síðan 2017 og er talin með betri framherjum heims. Hún hefur skorað 66 mörk í 75 deildarleikjum fyrir Arsenal og þá hefur hún skorað 85 landsliðsmörk í 104 leikjum fyrir Holland.

Hún mun leiða sóknarlínu Hollands á EM í sumar og án alls efa vera ein af stjörnum mótsins. Hvaða lið hún hefur samið við fyrir þann tíma verður að koma í ljós.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×