Fótbolti

Jóhannes Karl nýr að­­stoðar­­þjálfari A-lands­liðs karla | ÍA í þjálfara­leit

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jóhannes Karl er nýr aðstoðarmaður Arnars Þórs Viðarssonar hjá íslenska A-landsliðinu í fótbolta.
Jóhannes Karl er nýr aðstoðarmaður Arnars Þórs Viðarssonar hjá íslenska A-landsliðinu í fótbolta. Vísir/Bára Dröfn

Jóhannes Karl Guðjónsson hefur verið ráðinn sem aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta. Hann hefur störf nú þegar og hefur sagt starfi sínu hjá ÍA lausu.

Kemur þetta fram í tilkynningu frá Knattspyrnusambandi Íslands en þá hefur ÍA einnig greint frá þessu á samfélagsmiðlum sínum.

„Knattspyrnufélag ÍA veitti þjálfara meistaraflokks karla, Jóhannesi Karli Guðjónssyni, leyfi fyrir stuttu til að ræða við KSÍ um starf aðstoðarlandsliðsþjálfara A landsliðs karla. Jóhannes Karl hefur ákveðið að taka boði KSÍ og mun því láta af störfum hjá ÍA," segir í tilkynningu ÍA.

Jóhannes Karl er 41 árs gamall og hefur stýrt uppeldisfélagi sínu ÍA frá árinu 2018. Þar áður þjálfaði hann HK. Hann lék lengi vel sem atvinnumaður í Belgíu, Hollandi, Spáni og Englandi Þá er hann faðir Ísaks Bergmanns, leikmanns FC Kaupmannahafnar í Danmörku.

Jóhannes Karl tekur við starfinu af Eiði Smára Guðjohnsen sem komst að samkomulagi við KSÍ um starfslok í nóvember á síðasta ári.

ÍA hefur nú þegar hafið leit að nýjum þjálfara en liðið bjargaði sér á ævintýralegan hátt frá falli á síðustu leiktíð. Þangað til að nýr þjálfari finnst mun Guðlaugur Baldursson, aðstoðarþjálfari liðsins, stýra æfingum.

Hér að neðan má sjá tilkynningu ÍA í heild sinni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.