Bíó og sjónvarp

Yfirvöld vinna í nýjum enda Fight Club í Kína

Samúel Karl Ólason skrifar
Hinn ímyndaði Tyler Durden, sem Brad Pitt lék, endar einhvern veginn á „geðveikrahæli“ í nýjum enda Fight Club í Kína.
Hinn ímyndaði Tyler Durden, sem Brad Pitt lék, endar einhvern veginn á „geðveikrahæli“ í nýjum enda Fight Club í Kína.

Fight Club, kvikmyndin víðfræga frá 1999, hefur tekið breytingum í Kína. Hin klassíska mynd David Fincher með þeim Edward Norton og Brad Pitt í aðalhlutverkum, birtist nýlega á streymisveitunni Tencent Video í Kína með mikið breyttum endi.

Breytingarnar virðast ekki hafa fallið í kramið meðal aðdáenda myndarinnar í Kína.

Í upprunalegum enda myndarinnar drepur aðalpersónan (Norton) sinn ímyndaða vin Tyler Durden (Pitt) og fylgist svo með þegar sprengjur sem fylgjendur hans hafa komið fyrir víða fella fjölda bygginga. Í þessum byggingum voru geymdar ýmsar fjármálaupplýsingar en markmið aðalpersónunnar var að fella „kerfið“.

Slíkum boðskap eru ráðamenn í Kína ekki hlynntir.

Í nýrri útgáfu myndarinnar á Tencent Video drepur persóna Norton enn sinn ímyndaða „vin“. Í kjölfar þess kemur hins vegar svartur skjár með textanum:

„Gegnum vísbendingar sem Tyler útvegaði, komst lögreglan á snoðir um ráðabruggið og handtók alla glæpamennina og kom í veg fyrir sprengingarnar. Eftir réttarhöld var Tyler sendur til geðveikrahælis þar sem hann fékk hjálp. Hann var útskrifaður af sjúkrahúsi árið 2012.“

Hér er vert að ítreka aftur að Tyler Durden var ímyndaður. Nokkurs konar hliðarpersónuleiki persónu Edwart Norton.

Í frétt AFP fréttaveitunnar segir að ekki sé ljóst hvort ritskoðendur Kommúnistaflokks Kína hafi breytt myndinni eða aðrir. Kvikmyndaver í Bandaríkjunum gera reglulega mismunandi útgáfur af kvikmyndum til að komast hjá ritskoðendum í Kína og fá aðgang að kínverskum mörkuðum.

Sjá einnig: Boston og NBA í bobba í Kína

Í frétt Fortune er kvikmyndin Iron Man 3 nefnd en Disney lét bæta atriði inn í hana árið 2013 þar sem kínverskir læknar björguðu lífi Tony Stark, hetju myndarinnar. Það atriði var eingöngu sýnt í Kína.

Á undanförnum árum hafa ráðamenn í Kína gripið til fjölbreyttra aðgerða sem ætlað er að hreinsa samfélagið af því sem þykir ekki í takti við samfélagið eins og umræddir ráðamenn vilja hafa það.

Þar á meðal hefur verið gripið til aðgerða gegn leikurum og framleiðendum sjónvarpsefnis. Leikarar sem þykja of kvenlegir eða of miklir vesalingar voru til að mynda bannaðir nýlega.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×