Fótbolti

Hetju­leg bar­átta Kómor­eyja dugði ekki til: Kamerún og Gambía í átta liða úr­slit

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Úr leik Kamerún og Kómoreyja í kvöld.
Úr leik Kamerún og Kómoreyja í kvöld. Twitter/CAF_Online

Tvær þjóðir tryggðu sér sæti í 8-liða úrslitum Afríkukeppninnar í knattspyrnu í kvöld. Gambía vann 1-0 sigur á Gíneu á meðan Kamerún vann Kómoreyjar 2-1 í leik þar sem tapliðið neyddist til að spila með útileikmann í marki.

Musa Barrow, leikmaður Bologna á Ítalíu, reyndist hetja Gambíu en hann skoraði eina mark leiksins þegar tæpar tuttugu mínútur voru til leiksloka. Gambíumenn enduðu þó leikinn manni færri þar sem Yusupha Njie nældi sér í sitt annað gula spjald og þar með rautt.

Það kom ekki að sök þar sem Gambía vann 1-0 og er komin áfram í 8-liða úrslit.

Í hinum leik kvöldsins mættust Kamerún og Kómoreyjar. Til að gera verkefni síðarnefnda landsins enn erfiðara í kvöld þurfti liðið að stilla upp með útileikmann í marki. Féll það í skaut vinstri bakvarðarins Chaker Alhadhur að standa á milli stanganna.

Ef verkefni kvöldsins var ekki nægilega erfitt fyrir Kómoreyjar þá varð það nær ómögulegt þegar reynsluboltinn Nadjim Abdou fékk beint rautt spjald á 7. mínútu.

Karl Toko Ekambi kom Kamerún yfir þegar hálftími var liðinn og staðan 1-0 í hálfleik. Það tók Kamerún nokkuð langan tíma að ganga frá leiknum en á endanum kom annað mark liðsins þegar aðeins tuttugu mínútur voru eftir af leiknum.

Markið skoraði markahrókurinn Vincent Aboubakar og tryggði svo gott sem sæti Kamerún í 8-liða úrslitum. Youssouf M'Changama tókst reyndar að minnka muninn fyrir Kómoreyjar með einu glæsilegasta aukaspyrnumarki síðari ára en nær komst liðið ekki og lokatölur því 2-1 Kamerún í vil.

Kamerún og Gambía því komin í 8-liða úrslit keppninnar ásamt Túnis og Búrkína Fasó.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.