Innlent

Lög­reglan rann­sakar mál skip­stjórans á Herjólfi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Lögregla rannsakar málið.
Lögregla rannsakar málið. Vísir/Vilhelm

Lögreglan í Vestmannaeyjum hefur hafið rannsókn á máli skipstjóra sem hélt áfram að sigla Herjólfi eftir að atvinnuréttindi mannsins runnu út rétt fyrir jól.

Þetta staðfestir Jóhannes Ólafsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni í Vestmanneyjum í samtali við Vísi.

RÚV greindi frá málinu á föstudaginn en í frétt Ríkisútvarpsins kom fram að skipstjóri hjá Herjólfi hefði verið lækkaður í tign eftir að athugasemd og kvörtun barst um óeðlileg vinnubrögð af hans hálfu.

Í frétt RÚV sagði að atvinnuréttindi mannsins hafi runnið út rétt fyrir jól. Hann hafi hins vegar áfram siglt Herjólfi eftir það, þangað til hann fékk réttindin endurnýjuð, í byrjun janúar.

Óheimilt er að leggja skipi úr höfn nema allir skipverjar hafi verið lögskráðir í skiprúm samkvæmt lögum um lögskráningu sjómanna. Ekki má lögskrá sjómenn nema skírteini skipverja, þar með talið skipstjóra, liggi fyrir.

Í fréttum RÚV af málinu hefur einnig komið fram að viðkomandi hafi í einhverjum tilvikum skráð nöfn annarra skipstjóra, án þeirra vitundar, þegar hann var að sigla Herjólfi.

Lögreglan rannsakar málið eins og fyrr segir, en brot gegn lögum um lögskráningu sjómanna og reglugerðum settum samkvæmt þeim varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×