Enski boltinn

Segja að Eriksen verði orðinn leikmaður Brentford á næstu dögum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Christian Eriksen gæti verið að snúa aftur í ensku úrvalsdeildina.
Christian Eriksen gæti verið að snúa aftur í ensku úrvalsdeildina. Lars Ronbog / FrontZoneSport via Getty Images

Danski knattspyrnumaðurinn gæti snúið aftur í ensku úrvalsdeildina, sjö mánuðum eftir að leikmaðurinn fór í hjartastopp á Evrópumótinu í sumar.

Ef marka má grein The Mirror verður Eriksen búinn að skrifa undir hjá Brentford fyrir miðvikudaginn næstkomandi.

Fyrr í vikunni var greint frá því að Eriksen væri með tilboð á borðinu frá Brentford þar sem kom fram að liðið hefði boðið leikmanninum sex mánaða samning með möguleika á eins árs framlengingu.

Eriksen hefur verið í Hollandi seinustu daga þar sem hann hefur æft með sínu gamla félagi, Ajax. Orðrómur var á kreiki um hvort að miðjumaðurinn væri að snúa aftur til hollensku meistaranna, en þjálfari liðsins, Erik ten Hag, segir að Eriksen hafi fengið að æfa með liðinu svo hann gæti vanist því að æfa með liði í hæsta gæðaflokki á ný.

Eriksen sjálfur segir að hann verði tilbúinn í slaginn í ensku úrvalsdeildinni eftir um það bil mánuð.

Þá má fastlega gera ráð fyrir því að leikmaðurinn ætli sér að vinna sér inn sæti í danska landsliðinu áður en HM í Katar hefst í desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×