Fótbolti

Ögmundur spilaði er Olympi­a­kos tapaði | Marka­laust hjá Sverri Inga

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ögmundur Kristinsson í leik með íslenska landsliðinu.
Ögmundur Kristinsson í leik með íslenska landsliðinu. Getty Images

Tveir Íslendingar voru í eldlínunni í 8-liða úrslitum grísku bikarkeppninni í knattspyrnu í dag. Ögmundur Kristinsson var í marki Olympiacos er liðið tapaði gegn Panetolikos og Sverrir Ingi Ingason lék með PAOK í markalausu jafntefli gegn AEK Aþenu.

Ögmundur hefur ekki fengið tækifæri í grísku deildinni en þar leiðir Olympiacos með níu stigum. Hann fær þó að spila bikarleiki liðsins og stóð vaktina er topplið efstu deildar mætti liðinu í 10. sæti.

Fór það svo að heimamenn í Panetolikos unnu leikinn 2-1 eftir að Olympiacos komst yfir. Leiknir eru tveir leikir í 8-liða úrslitum gríska bikarsins og því geta Ögmundur og félagar enn komist áfram.

Sverrir Ingi lék allan leikinn í hjarta varnar PAOK er liðið gerði markalaust jafntefli á heimavelli við AEK Aþenu. Gestirnir skoruðu raunar mark í síðari hálfleik en það var dæmt af eftir að myndbandsdómari leiksins skoðaði það betur, lokatölur því 0-0.

Síðari leikir 8-liða úrslitanna verða leiknir þann 25. janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×