Fótbolti

Senegal og Gínea upp úr B-riðli þrátt fyrir töpuð stig

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sadio Mane skoraði eina mark Senegal í riðlakeppninni.
Sadio Mane skoraði eina mark Senegal í riðlakeppninni. AP Photo/Sunday Alamba

Senegal og Gínea tryggðu sér í dag sæti í 16-liða úrslitum Afríkumótsins í fótbolta þrátt fyrir að hafa bæði tapað stigum í lokaumferð B-riðils. Senegal gerði markalaust jafntefli gegn Malaví og Gínea tapaði gegn Simbabve, 2-1.

Senegal endar á toppi riðilsins með fimm stig, en liðið skoraði aðeins eitt mark í öllum þremur leikjunum. Það mark skoraði Sadio Mane af vítapunktinum á sjöundu mínútu uppbótartíma gegn Simbabve, en hinir tveir leikir liðsins enduðu með markalausu jafntefli.

Þar sem að leikur Senegal og Malaví endaði með jafntefli átti Gínea möguleika á því að stela toppsæti riðilsins með sigri gegn Simbabve.

Það var þó botnlið Simbabve sem tók forystuna á 26. mínútu með marki frá Knowledge Musona, og Kudakwashe Mahachi tvöfaldaði forskotið stuttu fyrir hálfleik.

Liverpoolmaðurinn Naby Keita minnkaði muninn fyrir Gíneu snemma í síðari hálfleik, en það dugði ekki til og niðurstaðan varð 2-1 sigur Simbabve.

Gínea endar því í öðru sæti B-riðils með fjögur stig og er á leið í 16-liða úrslit. Liðið má þakka fyrir að Malaví hafi ekki stolið sigrinum gegn Senegal, því það hefði þýtt að Malaví væri á leið í 16-liða úrslit á kostnað þeirra.

Malaví er þó eins og staðan er núna á leið í 16-liða úrslit sem eitt af þeim liðum sem náði í flest stig í þriðja sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×