Fótbolti

Best í heimi en ekki í liði ársins

Sindri Sverrisson skrifar
Alexia Putellas fylgist með af skjá þegar Gianni Infantino, forseti FIFA, tilkynnir að hún hafi verið valin sú besta á síðasta ári.
Alexia Putellas fylgist með af skjá þegar Gianni Infantino, forseti FIFA, tilkynnir að hún hafi verið valin sú besta á síðasta ári. EPA-EFE/Harold Cunningham

Besta knattspyrnukona ársins 2021 að mati FIFA er ekki í úrvalsliði ársins að mati FIFA, eins einkennilega og það kann að hljóma.

Alexia Putellas, fyrirliði Evrópumeistara Barcelona, var kjörin besta knattspyrnukonan og hlaut 48 stig. Sam Kerr úr Chelsea varð í 2. sæti með 44 stig og Jennifer Hermoso úr Barcelona þriðja með 39 stig.

Engu að síður var Putellas ekki valin í ellefu manna úrvalslið ársins. Raunar var engin af þeim þremur bestu í úrvalsliðinu.

Sænski blaðamaðurinn Mia Eriksson, sem sérhæfir sig í umfjöllun um knattspyrnu kvenna, er ein þeirra sem benda á þessa undarlegu staðreynd. Hún stingur upp á að breytt verði um aðferðir við valið, til að gera það fagmannlegra. Því tengt harmar hún það enn að hin danska Pernille Harder skyldi ekki kjörin best í fyrra.

Í kjörinu á leikmanni ársins hafa aðeins þjálfarar og fyrirliðar landsliða heimsins, og sérvalinn blaðamaður frá hverju landi, atkvæðisrétt. Fulltrúar Íslands, þau Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, Þorsteinn Halldórsson og Víðir Sigurðsson, völdu öll Putellas í efsta sæti.

Í valinu á liði ársins fá hins vegar allir leikmenn sem eru atvinnumenn í fótbolta að kjósa. Samkvæmt heimasíðu leikmannasamtakanna FIFPro, sem sjá um kjörið, taka vanalega um 25.000 manns þátt og kjósa leikmenn í fjórar stöður; mark, vörn, miðju og sókn.

Og það er ekki svo að það bitni á leikmönnum ef þeir eru kosnir sem miðjumenn af sumum en sóknarmenn af öðrum. Tekið er tillit til þess og atkvæði lögð saman. Putellas fékk einfaldlega ekki nógu mörg atkvæði til að vera í liði ársins hjá þeim atvinnumönnum sem kusu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×