Erlent

Eyjan nær alveg horfin

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Appelsínugula línan markar fyrri útlínur eldstöðvareyjarinnar. Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands birti myndina í dag.
Appelsínugula línan markar fyrri útlínur eldstöðvareyjarinnar. Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands birti myndina í dag.

Eyjan sem áður myndaði hæsta punkt eldstöðvarinnar við Tonga er nær alveg horfin eftir eitt öflugasta sprengigos í seinni tíð. Hópstjóri hjá Veðurstofunni segir einstakt að höggbylgjur frá sprengingunni mælist hér á Íslandi.

Enn er óljóst hversu miklu tjóni sprengigosið í Hunga-Tonga-eldstöðinni við Tonga á laugardag olli en landið hefur verið nær sambandslaust með öllu síðan gosið varð og ekkert myndefni til frá hamförunum. Flugvélar frá Ástralíu og Nýja-Sjálandi voru sendar til eftirlits í dag. 

Þá er staðfest að bresk kona hafi farist þegar flóðbylgja skall á höfuðborg Tonga eftir gosið en sprengingin olli flóðbylgjum um allt Kyrrahafið.

„Flóðbylgja til dæmis barst að Mexíkó og þar náði hún að verða tveir metrar þegar hún skall á strönd,“ segir Halldór Björnsson, hópstjóri á Veðurstofu Íslands.

Halldór Björnsson er hópstjóri hjá Veðurstofu Íslands.Vísir/Arnar

Á myndinni hér fyrir neðan sést hvernig eyjan sem áður myndaði hæsta punkt neðanjarðareldstöðvarinnar leit út fyrir gos. Hún er nú nær alfarið horfin, eins og sést á myndinni efst í fréttinni. Hún er tekin úr gervitungli sem fór yfir svæðið í gær. Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands birti myndirnar á Facebook-síðu sinni í dag.

Svona var eldstöðvareyjan áður.

Gosmökkurinn sem myndaðist við hina ægilegu sprengingu er talinn hafa náð allt að þrjátíu kílómetra hæð. Á kortinu sem fylgir tísti Ragnars Heiðars Þrastarsonar landfræðings hér fyrir neðan sést mökkurinn miðað við Ísland, sem er til margs um gríðarlegt umfang hans.

Þrýstibylgjur frá gosinu hafa mælst á mælum Veðurstofu og halda áfram að mælast, tveimur dögum eftir að sprengigosið varð. Daníel Freyr Jónsson jarðfræðingur vann skýringarmyndina af bylgjunum sem fylgir sjónvarpsfréttinni úr gögnum Veðurstofu Íslands. Myndina má einnig sjá á Twitter-reikningi Daníels hér fyrir neðan.

„Við höfum séð þetta gerast núna þrisvar. Svo kemur önnur bylgjan, svo kemur fyrsta aftur og nú er væntanlega sú önnur á leiðinni yfir okkur aftur núna um þrjúleytið. Þannig að þetta er verulega stór atburður,“ segir Halldór, sem telur að gosið muni ekki hafa áhrif á loftslag.

„Það er mjög óvenjulegt að það mælast sprengingar af þessu tagi. Í gamla daga þegar urðu kjarnorkusprenginar var hægt að mæla þær í lofthjúpnum víða. En svona eldgosasprengingar vegna sprengigosa eru mjög fágætar og ég man ekki eftir að hafa séð svona áður.“

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Beðið eftir fregnum frá Tonga

Enn er óljóst hve miklu tjóni, skemmdum og mannskaða sprengigosið á Tonga um helgina hefur valdið. Flugvélar voru fyrst sendar af stað í morgun.

Tonga-eyjar orðnar eins og tunglið

Á Tonga-eyja­klasanum er um­horfs eins og á Tunglinu eftir gríðar­legt ösku­fall eftir neðan­jarðar­eld­gosið sem braust út í gær að sögn íbúa eyjanna. Þykkt ösku­lag hylur stóran hluta eyjanna alveg og hafa íbúar þeirra verið án raf­magns og síma­sam­bands síðan í gær.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×