Innlent

Íslendingar „á leið út af sporinu“ segir Ragnar Freyr

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ragnar birtir þessa mynd af spálíkani Landspítalans með eigin viðbót. Tölurnar tákna innlagnir á Landspítala vegna Covid-19.
Ragnar birtir þessa mynd af spálíkani Landspítalans með eigin viðbót. Tölurnar tákna innlagnir á Landspítala vegna Covid-19.

„Loksins sést til sólar,“ segir Ragnar Freyr Ingvarsson læknir á Facebook um stöðu Covid-19 faraldursins á hérlendis. Hann segir Íslendinga engu að síður „á leið út af sporinu“ og á þar við þær sóttvarnaaðgerðir sem voru boðaðar fyrir helgi.

„Bara á sex vikum hefur Omikron-afbrigðið náð heimsyfirráðum. Og gerbreytt öllu,“ segir Ragnar. Covid sé nú gjörólíkur þeim sjúkdóm sem hann var áður. „Ættu viðbrögð okkar að breytast?“ spyr hann.

Ragnar, sem er sérfræðingur í lyf- og gigtarlækningum, segir mun fleiri smitast en mun færri leggjast inn á sjúkrahús. Færri leggist inn vegna Covid en þó nokkrir með Covid. Sárafáir endi á gjörgæslu.

„Í gær var greint frá því að 45 sjúklingar lægju inni á Landspítala vegna COVID. Komið hefur fram að hluti þeirra er þegar laus úr einangrun og umtalsverður fjöldi liggur inni vegna annarra læknisfræðilegra vandamála en eru samtímis greindir með COVID,“ segir Ragnar.

Hann segir að þær takmarkanir sem komið var á fyrir helgi muni líklega ekki skila tilætluðum árangri, enda sé faraldurinn mestur meðal barna, unglinga og ungra fullorðinna í mennta- og háskólum. „Og líklega mun útbreiddari en við höldum,“ segir Ragnar.

„Víða erlendis verið að endurskoða nálgun í ljósi breyttra aðstæðna. Víða í kringum okkur er verið að skilgreina viðbrögð upp á nýtt í ljósi nýrra forsendna, m.a. á hinum Norðurlöndunum. Verið er að endurhugsa skimanir, sóttkví, viðbrögð almennings og á heilbrigðisstofnunum. Tímabært er að við gerum slíkt hið sama,“ segir læknirinn.

Þjóðin sé enn á ný að þrauka í hörðum samfélagsaðgerðum.

„Að þessu sinni erum við á leið út af sporinu. Mikilvægt er að við komum okkur á rétta braut fyrr en seinna.

Loksins sést til sólar.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×