Innlent

Fella niður leik­­skóla­­gjöld þeirra sem halda börnum heima vegna far­aldursins

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri.
Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri. Vísir/Vilhelm

Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar hefur ákveðið að fella niður leikskólagjöld og gjöld vegna mötuneyta hjá þeim foreldrum sem halda börnum sínum heima vegna faraldurs kórónuveirunnar. Um 40 prósent starfsmanna Grunnskólans í Hveragerði er fjarverandi vegna veikinda. 

Kórónuveiran leikur íbúa Hveragerðis grátt líkt og alls staðar annars staðar. 78 íbúar í bæjarfélagsins voru skráðir í einagrun í gær.

Sunnlenska.is greindi fyrst frá því að hátt í 40% starfsmanna Grunnskólans í Hveragerði eru fjarverandi vegna kórónuveirunnar eða annarra veikinda og á annað hundrað nemendur. Bæjarstjóri Hveragerðisbæjar segir að nokkuð mörg tilfelli hafi greinst í frístund sem og í leikskólum bæjarins.

„Þannig við höfum verið að fella niður starfsemi og í gær ákváðum við að loka þessum þremur starfsstöðvum alveg á mánudaginn kemur því að með því móti náum við helginni og auka degi og í grunnskólum náum við enn meiri lokum því það er starfsdagur og foreldraviðtöl áætluð á þriðjudag og miðvikudag,“ sagði Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri Hveragerðisbæjar.

Verða að tilkynna fyrir fram

Þið hafið ákveðið að biðla til foreldra barna á leikskólum bæjarins sem hafa tök á að halda börnum sínum heima. Ætlið þið að gera eitthvað til að koma til móts við þessar fjölskyldur? 

„Já bæjarstjórn ákvað að fella niður leikskólagjöld hjá foreldrum sem tilkynna fyrir fram að börnin verði heima. Við erum afar þakklát fyrir viðbrögð við þessu. Þetta léttir mjög undir þegar þeir sem geta bregðast við með þeim hætti að hafa börnin sín heima á meðan ástandið er svona.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×