Evra varði meðal annars rétt fólks til að hafna bólusetningu, sagði að faraldurinn væri pólítískur, óttinn réði og gaf í skyn að einn ríkasti maður heims hafi átt þátt í að hrinda faraldrinum af stað.
„Í augnablikinu finnst mér við tala of mikið um þetta covid. Við verðum að vera heiðarleg. Fólk hefur dáið vegna covid en ég fæ það á tilfinninguna að jafnvel ef þú lendir í bílslysi segjum við að það hafi verið út af covid,“ sagði Evra við BFM TV.
„Mér finnst þetta vera pólítískt og ef alltaf sagt að þegar þú vilt stjórn fólki gerirðu það með óttanum. Við verðum að vera á varðbergi.“
Evra sagði að óbólusettir ættu ekki að fá aðra meðferð en aðrir. „Þetta verður að hætta núna, að bólusett fólk sé álitið gott en óbólusett vont. Nei, öllum er frjálst að gera og trúa því sem þeir vilja. Fólk verður að hafa rétt til að gera það sem það vill. Því enginn veit í raun hvað þetta er, þetta covid. Fyrir mér er þetta tilviljun. Við ljúgum ekki að hvort öðru. Þetta covid er fyrir tilviljun.“
Evra blandaði svo bandaríska milljarðamæringnum Bill Gates í málið og ýjaði að því að hann hefði vitað af veirunni fyrir löngu.
„Bill Gates hafði þegar talað um þetta á ráðstefnu 2013. Ég segi ekki að þetta hafi verið skipulagt en ég myndi vilja að fólk talaði einhvern tímann um þetta, því ég tala alltaf hreint út. En covid hræðir mig ekki,“ sagði Evra í skringilegri ræðu.
Vorið 2020, í fyrstu bylgju faraldursins, bað Evra fólk að halda sig heima og hvatti þá sem áttu í vandræðum vegna veirunnar til dáða. Tæpum tveimur árum seinna er komið aðeins annað hljóð í strokkinn hjá Frakkanum.