Fótbolti

Dómarinn í leik Túnis og Malí fluttur á spítala með sólsting og ofþornun

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hitinn fór eitthvað illa í Janny Sikazwe.
Hitinn fór eitthvað illa í Janny Sikazwe. getty/Matthew Ashton

Janny Sikazwe, sem flautaði tvisvar til leiksloka hjá Túnis og Malí í Afríkukeppninni áður en leiktíminn var runninn út, var fluttur á spítala eftir leikinn. Hann var með sólsting og ofþornun.

Sikazwe var ekki alveg með hlutina á hreinu í leik Túnis og Malí í fyrradag. Hann flautaði fyrst til leiksloka á 86. mínútu og svo aftur þegar tíu sekúndur voru eftir. Túnismenn voru skiljanlega ósáttir enda voru þeir 1-0 undir en manni fleiri.

Eftir mikla reikistefnu og rúmum hálftíma eftir að leik lauk var ákveðið að spila þær þrjár mínútur sem Sikazwe átti að bæta við. Ekkert varð þó úr því. Túnisar mættu ekki aftur út á völlinn og fjórði dómarinn dæmdi því Malímönnum sigur, 3-0.

Yfirmaður dómaramála í Afríkukeppninni, Essam Abdel-Fatah, kom Sikazwe til varnar og sagði að hann hefði þurft að fara á spítala eftir leikinn vegna sólstings og ofþornunar. Leikurinn fór fram í um 34 stiga hita og miklum raka.

„Dómarinn fékk sólsting og ofþornaði sem varð til þess að hann missti einbeitinguna og var fluttur á sjúkrahús,“ sagði Abdel-Fatah.

„Þetta varð til þess að hann týndi tímanum á 80. mínútu og hann flautaði af fimm mínútum seinna. Hann hélt áfram eftir ábendingar frá aðstoðarmönnum sínum og flautaði aftur af á 89. mínútu. Eftir alla reikistefnuna átti fjórði dómarinn að klára leikinn en liðin höfnuðu því.“

Sikazwe er einn fremsti dómari Afríku. Hann dæmdi til að mynda úrslitaleik HM félagsliða 2016, úrslitaleik Afríkukeppninnar 2017 og tvo leiki á HM 2018. Sikazwe var hins vegar settur í bann í nóvember 2018 vegna gruns um spillingu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.