Fótbolti

„Mamma sagði mér að ég ætti þetta skilið“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Athletic Bilbao bræðurnir Nico Williams og  Inaki Williams fagna með móður sinni eftir leikinn en hún flaug til Sádí Arabíu til að horfa á strákana sína spila.
Athletic Bilbao bræðurnir Nico Williams og  Inaki Williams fagna með móður sinni eftir leikinn en hún flaug til Sádí Arabíu til að horfa á strákana sína spila. AP/Hassan Ammar

Athletic Bilbao sló Atletico Madrid óvænt út úr spænska Ofurbikarnum í gær og tryggði sér um leið úrslitaleik á móti Real Madrid.

Hetja Athletic Bilbao var táningurinn Nico Williams sem skoraði sigurmarkið níu mínútum fyrir leikslok en stórlið Atletico Madrid hafði komist yfir í leiknum.

Real Madrid vann 3-2 sigur á Barcelona í hinum undanúrslitaleiknum og úrslitaleikurinn fer fram á sunnudaginn.

Fjögur lið fá þátttöku í spænska Ofurbikarnum sem er spilaður í Sádí Arabíu en það eru tvö efstu liðin í deildinni og í spænska bikarnum frá síðustu leiktíð.

Nico Williams er nítján ára gamall og á sínu fyrsta alvöru tímabili með aðalliði Athletic Bilbao. Eldri bróðir hans, Inaki Williams, hefur spilað með liðinu undanfarin átta ár og er sá sem hefur spilað flesta leiki í röð í spænsku deildinni án þess að missa úr leik.

„Það eru miklar tilfinningar í gangi hjá mér núna,“ sagði Nico Williams eftir leikinn.

„Ég vona að það verði fleiri svona ánægjustundir. Ég er svo ánægður að fá að upplifa þetta með bróður mínum og móður minni sem kom og faðmaði okkur bræðurna í leikslok,“ sagði Nico.

„Mamma sagði mér að ég ætti þetta skilið. Ég mun aldrei gleyma faðmlaginu frá bróður mínum eftir að ég skoraði markið,“ sagði Nico.

Nico Williams hefur ekki náð að skora í spænsku deildinni í vetur en hann skoraði bæði mörkin í 2-0 sigri á Mancha Real í spænska bikarnum í byrjun nýs árs. Árið 2022 fer því vel af stað hjá stráknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×