Enski boltinn

Cristiano Ronaldo um Rangnick: Búinn að breyta miklu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo á ferðinni með boltann í leik Manchester United í vetur. Ronaldo hefur skorað fjórtán mörk á leiktíðinni.
Cristiano Ronaldo á ferðinni með boltann í leik Manchester United í vetur. Ronaldo hefur skorað fjórtán mörk á leiktíðinni. Getty/Gareth Copley

Cristiano Ronaldo segist hafa mikla trú á knattspyrnustjóranum Ralf Rangnick þrátt fyrir basl í byrjun. Hann er á því að Rangnick þurfi tíma til að breyta hlutunum á Old Trafford.

Ronaldo ræddi knattspyrnustjórann í nýju viðtali en það hefur gengið á ýmsu í gagnrýni sérfræðinga og annarra á frammistöðu Manchester United. Eftir 1-0 tap á móti Úlfunum í síðasta deildarleik er liðið aðeins í sjöunda sæti deildarinnar.

Ralf Rangnick settist í stjórastólinn i kjölfarið á því að Ole Gunnar Solskjær var rekinn. Hann á bara að stýra liðinu fram á sumar en svo verður nýr framtíðarstjóri ráðinn.

Vandamálið er að eins og staðan er núna þá er Manchester United langt frá því að vera öruggt með sæti í Meistaradeildinni á næstu leiktíð. Ronaldo er jákvæður út í knattspyrnustjóra sinn.

„Síðan að hann kom þá er hann búinn að breyta miklu. Hann þarf tíma til að koma öllum hugmyndunum sínum inn hjá leikmönnum,“ sagði Cristiano Ronaldo í viðtali við Sky Sports.

„Ég hef trú á því að hann muni skila góðu starfi. Ég veit að við erum ekki að spila okkar besta bolta en það eru margir leikir eftir til að bæta það,“ sagði Ronaldo.

„Ég er á því að við séum orðnir betri á sumum sviðum. Það er ekki auðvelt að breyta hugarfari leikmanna og hvernig þeir spila, hvernig menningin er eða hvaða leikkerfi er notað,“ sagði Ronaldo.

„Ég sætti mig ekki við annað en að við ætlum okkur að vera eitt af þremur efstu liðunum í deildinni. Til að byggja upp eitthvað gott þá þarftu stundum að brjóta niður hluti. Nú er komið nýtt ár, nýtt líf og ég vona að United geti spilað jafnvel og stuðningsfólkið vill. Það á það skilið,“ sagði Ronaldo.

„Við höfum burði til að breyta hlutnum núna. Ég veit hvernig en ég ætla ekki að segja það hér því það væri ekki siðferðilega rétt af minni hálfu að gera það. Það sem ég get sagt er að við getum gert betur og þá er ég að tala um alla. Ég er kominn hingað til að vinna,“ sagði Ronaldo.

Manchester United sló Astopn Villa út úr enska bikarnum á mánudaginn og liðið mætir lærisveinum Steven Gerrard síðan aftur í deildinni á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×