Innlent

Ár­gangur sendur í hús­næði KSÍ: Enn meiri mygla í Lauga­lækjar­skóla

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Jón Páll Haraldsson skólastjóri í Laugarlækjaskóla.
Jón Páll Haraldsson skólastjóri í Laugarlækjaskóla. Vísir

Mygla hefur greinst í fimm stofum Laugalækjarskóla til viðbótar við þrjár stofur sem þegar voru til viðgerðar. Nemendur í níunda bekk eru á leið í skrifstofuhúsnæði í stúkunni í Laugardalshöll þar sem þeim verður kennt á næstu fimm til sex vikum.

Í Laugalækjarskóla eru sautján skólastofur og virðist vandinn því umfangsmeiri en talið var í fyrstu. Myglan fannst upphaflega undir gólfdúkum í skólastofum í nóvember í fyrra en Jón Páll Haraldsson, skólastjóri í Laugalækjarskóla, segir gott að málið sé komið í farveg.

„Það voru hérna nemendur sem voru farnir að finna fyrir óþægindum þannig að okkur grunaði að hér væri eitthvað að, en umfangið kemur aðeins á óvart. Það er gott að það sé verið að gera við þetta,“ segir Jón Páll.

Aðspurður segir Jón Páll að myglan setji skólastarfið eðli málsins samkvæmt í uppnám næstu vikurnar: „Það er heill árgangur sem er að fara á morgun, eða á föstudaginn líklega, upp í KSÍ-aðstöðuna hérna undir stúkuna á Laugardalsvellinum. Það er hérna rétt hjá og væsir ekkert um okkur en það þarf svolítið að skipuleggja og breyta töflum hjá kennurum og nemendum,“ segir Jón Páll.

Mygla í skólum á höfuðborgarsvæðinu virðist algengt vandamál en skólastjórinn í Laugalækjarskóla segist ekki vita hvað valdi. Hann grunar að vanræksla á viðhaldi á árunum eftir hrun spili inn í en segir þó að með tjáningunni sé hann kominn út fyrir sitt sérsvið.

„Ég er voðalega feginn að það er verið að ganga í þetta og gera þetta,“ segir Jón Páll Haraldsson skólastjóri í Laugalækjarskóla.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×