Fótbolti

Danskt úr­vals­deildar­lið á eftir Atla Barkar­syni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Atli fagnar einu marka Víkings í sumar.
Atli fagnar einu marka Víkings í sumar. Vísir/Bára Dröfn

Atli Barkarson, vinstri bakvörður Íslands- og bikarmeistara Víkings, gæti verið á leið til Danmerkur en SöndejyskE hefur boðið í leikmanninn.

Atli er tvítugur vinstri bakvörður sem gerði gott mót í sumar er Víkingur vann tvöfalt. Eftir að hafa leikið með yngri liðum Norwich City á Englandi og Fredrikstad í Noregi gekk Atli í raðir Víkinga í febrúar 2020. Nú virðist sem hann sé á förum.

Hjörvar Hafliðason, þáttastjórnandi hlaðvarpsins Dr. Footall, greindi frá því í dag að danska úrvalsdeildarfélagið SönderjyskE hefði boðið í Atla og viðræður væru í gangi. Ekki er þó búið að semja um kaupverð.

SönderjyskE er í 11. sæti af 12 liðum í dönsku úrvalsdeildinni með 10 stig, aðeins 9 stigum meira en botnlið Vejle.

Fimm umferðir eru eftir af hefðbundinni deildarkeppni áður en deildinni verður skipt um og efstu sex liðin leika sín á milli um titilinn á meðan liðin í 7. til 12. sæti leika sín á milli um sæti í deildinni.

Atli yrði annar Íslendingurinn í herbúðum félagsins en Kristófer Ingi Kristinsson hefur leikið með SönderjyskE síðan hann gekk í raðir þess síðasta sumar. Þar áður var hann á mála hjá Willem II í Hollandi og Grenoble í Frakklandi.

Þá hefur norska félagið Vålerenga einnig augastað á Atla samkvæmt heimildum Fótbolta.net.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.