Fótbolti

Norska súperstjarnan tók mynd af Söru og syninum á æfingasvæði Lyon

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir með soninn, Ragnar Frank Árnason.
Sara Björk Gunnarsdóttir með soninn, Ragnar Frank Árnason. twitter síða ödu hegerberg

Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði íslenska fótboltalandsliðsins, er komin aftur til Lyon eftir að hafa eignast sitt fyrsta barn.

Síðustu mánuði meðgöngunnar var Sara á Íslandi. Hún eignaðist svo son sinn, Ragnar Frank, 16. nóvember.

Sara hélt aftur til Lyon í Frakklandi 4. janúar og næsta verkefni hennar er að komast aftur í fótboltaform.

Sara mætti með Ragnar Frank á æfingasvæði Lyon í gær. Norska stórstjarnan Ada Hegerberg gat ekki stillt sig um að smella mynd af þeim mæðginum og skellti henni á Twitter. „Sjáið hana! Mamma í húsinu. Velkomin til baka,“ skrifaði Hegerberg.

Þótt Hegerberg og Sara séu samherjar hjá Lyon hafa þær aldrei spilað saman. Þegar Sara kom til Lyon var Hegerberg frá vegna alvarlegra meiðsla.

Hegerberg, sem var fyrsta konan til að vinna Gullboltann, sneri aftur á völlinn í október eftir tuttugu mánaða fjarveru. Hún sleit krossband í hné í janúar 2020.

Hegerberg, sem er 26 ára, er markahæsti leikmaður í sögu Meistaradeildar Evrópu með 56 mörk og enginn leikmaður hefur skorað fleiri mörk á einu tímabili í Meistaradeildinni, eða fimmtán. Hún hefur alls skorað 229 mörk í 195 leikjum fyrir Lyon. Þá skoraði hún 38 mörk í 66 leikjum fyrir norska landsliðinu áður en hún hætti að spila með því 2017.

Sara gekk í raðir Lyon sumarið 2020. Hún vann Meistaradeildina á fyrsta tímabili sínu með liðinu og skoraði í úrslitaleiknum gegn sínum gömlu félögum í Wolfsburg.

Lyon hefur unnið alla ellefu leiki sína í frönsku úrvalsdeildinni og er með þriggja stiga forskot á Paris Saint-Germain. Þá er Lyon komið í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar þar sem liðið mætir Juventus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×