Innlent

Verka­lýðs­hreyfingin ætlar í mál við ríki og sveitar­fé­lög

Eiður Þór Árnason skrifar
Drífa Snædal er forseti Alþýðusambands Íslands.
Drífa Snædal er forseti Alþýðusambands Íslands. vÍSIR/eGILL

Verkalýðshreyfingin hyggst fara í mál við ríki og sveitarfélög vegna ágreinings um nýtingu orlofsréttar þegar starfsmenn lenda í sóttkví.

„Við segjum að þá getir þú ekki notið orlofsins, sem er tilgangurinn með orlofinu, og þannig á orlofið að frestast ef þú lendir í sóttkví. Ríki og sveitarfélög eru með aðra túlkun og þess vegna verður skorið úr þessu fyrir dómstólum,“ segir Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands, í samtali við Vísi. RÚV greindi fyrst frá málinu

Hún segir að þessi túlkun opinberra aðila hafi breytt miklu fyrir fólk sem átti um mánaðarlangt orlof og endaði á því að vera tvær vikur af því í sóttkví.

„Þú ert náttúrulega frelsisskertur að einhverju leyti og þarft að setja öll plön á hilluna. Við lítum svo á að þá ertu á ganga á orlofið sitt svo það nýtist ekki sem skildi. Ef maður fer bara í lögin um orlof þá er það alveg ljóst að tilgangur orlofs er að fólk geti notið frís eðlilega og það getur það ekki ef það er í sóttkví.“

Aðilar á einkamarkaði yfirleitt komist að annarri niðurstöðu

Drífa á von á því að þetta geti verið töluvert mörg mál í ljósi þess að margir voru sendir í sóttkví yfir sumarorlofstímabilið síðustu tvö ár. Hún segir dæmi um að starfsmenn á einkamarkaði hafi leyst slík mál farsællega í samvinnu við vinnuveitendur sína.

Á sama tíma hafi Kjara- og mannauðsýsla ríkisins komist að þeirri niðurstöðu að orlofstaka eigi ekki að frestast ef starfsmaður fer í sóttkví.

„Þannig að það er alveg ljóst þeirra viðhorf og það þarf bara að skera úr að þessu fyrir dómstólum.“ Drífa segir að ASÍ vinni nú að undirbúningi málarekstursins og ekki liggi fyrir hvenær von er á næstu skrefum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×