Innlent

Kláraði við­skiptin fyrir utan eftir að hann æsti sig vegna grímu­skyldu

Eiður Þór Árnason skrifar
Málið var leyst á staðnum og fékk maðurinn sínar vörur.
Málið var leyst á staðnum og fékk maðurinn sínar vörur. Vísir/Vilhelm

Óskað var eftir aðstoð lögreglu í ónefndri verslun í Reykjavík í dag þegar viðskiptavinur neitaði að bera andlitsgrímu inn í verslunarhúsnæðinu. Maðurinn sinnti ekki tilmælum starfsmanna og stóð fyrir utan verslunina þegar lögregla kom á staðinn.

„Þetta var maður af erlendu bergi brotinn sem gat framvísað vottorði frá sínu heimalandi um að út af hans líkamsástandi þá sé hann undanþegin grímuskyldu,“ segir Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við Vísi.

Starfsfólk verslunarinnar aðstoðaði svo manninn við að klára viðskiptin á meðan hann beið utandyra.

„Þetta var bara leyst og flott hjá starfsfólkinu að klára málið. Það er afskaplega sjaldgæft að fólk sé með svona vottorð og fæstir hafa séð hvernig þau líta út. Þegar menn framvísa einhverju sem menn hafa aldrei séð þá eru þeir kannski ekki alveg með það á hreinu hvað á að gera.“

Fyrirtæki þurfi ekki að veita undantekningu

Ásgeir segir að þó einstaklingur geti framvísað gildum skjölum um undanþágu frá grímuskyldu þá sé það undir versluninni komið hvort þeir fái að koma þangað inn.

„Þeir eru alveg með forræðið á því hvaða reglur gilda þar innandyra. Ef það væri grímuskylda á almannafæri þá gætir þú framvísað svona vottorði en ef það eru reglur fyrirtækisins sem segja að það sé grímuskylda án undantekninga þá bara er það svoleiðis.“

Ásgeir segir það afar sjaldgæft að aðilar óski eftir aðstoð lögreglu við að framfylgja grímuskyldu.

„Það var einhver æsingur þarna aðeins í byrjun en þegar það var búið að vinda ofan af þessu þá skildu menn bara sáttir og það voru engir eftirmálar. Verslunin fékk viðskiptin, kúnninn fékk vörurnar og það var engin kæra svo þetta var bara eins og best verður á kosið,“ segir Ásgeir Þór.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×