Fótbolti

Segir að Zidane taki við PSG í seinasta lagi í júní

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Zinedine Zidane verður orðinn þjálfari PSG í seinasta lagi í júní ef marka má orð blaðamannsins Daniel Riolo.
Zinedine Zidane verður orðinn þjálfari PSG í seinasta lagi í júní ef marka má orð blaðamannsins Daniel Riolo. Getty/Juan Manuel Serrano

Franski knattspyrnustjórinn og fyrrum fótboltamaðurinn Zinedine Zidane verður orðinn þjálfari franska stórveldisins Paris Saint-Germain í júní í seinasta lagi ef marka má orð blaðamannsins Daniel Riolo.

Riolo starfar á útvarpsstöðinni RMC Sport og hann var sá fyrsti til að færa fréttir af því að Lionel Messi væri á leið til Parísarliðsins.

Zidane mun þá taka við af Argentínumanninum Mauricio Pochettino sem tók við stjórnartaumunum hjá PSG í janúar á seinasta ári. Undir stjórn Pochettino mistókst PSG að vinna frönsku deildina í fyrsta skipti síðan 2017, en liðið hefur unnið frönsku deildina sjö sinnum á seinustu níu árum.

Ef orð Riolo reynast rétt mun Zidane þó ekki taka við liðinu fyrr en að þessu tímabili loknu þar sem að stjórn PSG hefur ákveðið að leyfa Pochettino að klára yfirstandandi tímabil. Argentínumaðurinn mun því freista þess að vinna Meistaradeild Evrópu í fyrsta skipti í sögu félagsins, ásamt því að sækja deildarmeistaratitilinn aftur til Parísar.

Zidane og Pochettino hafa báðir verið orðaðir við stöðu knattspyrnustjóra Manchester United næsta haust, en ef úr þessu verður gæti það talist nokkuð líklegt að forráðamenn United skoði þann möguleika að fá Argentínumanninn til liðs við sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×