Fótbolti

Fékk morðhótun eftir val á landsliðshópi

Sindri Sverrisson skrifar
Kwame Quee varð Íslands- og bikarmeistari með Víkingi í fyrra og er í leikmannahópi Síerra Leóne á Afríkumótinu.
Kwame Quee varð Íslands- og bikarmeistari með Víkingi í fyrra og er í leikmannahópi Síerra Leóne á Afríkumótinu. vísir/hulda margrét

Þjálfarinn John Keister valdi meðal annars Íslands- og bikarmeistarann Kwame Quee í landsliðshóp Síerra Leóne. Ekki voru allir á eitt sáttir með val hans á hópnum.

Keister segir við BBC að hann hafi fengið líflátshótanir í kjölfar þess að hann tilkynnti val sitt á landsliðshópnum, fyrir Afríkumótið sem hefst í Kamerún á sunnudag.

Um var að ræða tvær líflátshótanir sem snerust um að hann ætti að velja ákveðna leikmenn. Hótanirnar bárust honum degi áður en hann tilkynnti 28 manna hóp sinn.

„Ég tel að það sé mjög, mjög sorglegt að það skuli hafa komið til þessa,“ sagði Keister sem tilkynnti hótanirnar til lögreglu.

„Það skiptir ekki máli hvað þú ert að gera í lífinu, enginn á svona lagað skilið,“ sagði Keister.

Kwame og félagar hefja keppni gegn Alsír 11. janúar og eru einnig í riðli með Fílabeinsströndinni og Miðbaugs-Gíneu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×