Enski boltinn

Margir leikmenn sagðir vilja komast í burtu frá Man. United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ralf Rangnick eftir tapleik Manchester United á móti Wolverhampton Wanderers á Old Trafford á mánudagskvöldið.
Ralf Rangnick eftir tapleik Manchester United á móti Wolverhampton Wanderers á Old Trafford á mánudagskvöldið. Getty/Gareth Copley

Það er ljóst að næstu vikur og mánuðir verða mjög krefjandi fyrir Ralf Rangnick, knattspyrnustjóra Manchester United.

Rangnick tapaði sínum fyrsta leik sem knattspyrnustjóri United á mánudagskvöldið og ósannfærandi spilamennska liðsins kallaði á mikla gagnrýni frá helstu sérfræðingum.

Knattspyrnuspekingar eru flestir á því að honum hafi ekki tekist að fá stórstjörnur United til að vinna saman og það líti hreinlega út fyrir að leikmenn geri bara það sem þeim langar til inn á vellinum.

Það eru líka farnar að heyrast mikið af óánægjuröddum innan úr herbúðum liðsins og það virðast vera margir ósáttir í klefanum.

Í nýrri frétt frá Daily Mirror er sagt frá því að ellefu leikmenn liðsins vilji yfirgefa Manchester United í janúarglugganum.

Rangnick mætti á Old Trafford í lok nóvember 2021 eftir að Ole Gunnar Solskjaer var rekinn. Hann á að stýra liðinu fram á sumar þegar nýr framtíðarstjóri liðsins verður ráðinn.

Hinn 63 ára gamli þýski knattspyrnustjóri er í fyrsta sinn að stýra einu af stóru félögunum í knattspyrnuheiminum og er í fyrsta sinn að glíma við mikla pressu og fullt af stórstjörnum í leikmannahópnum.

Samkvæmt fyrrnefndri frétt eru það allt að ellefu leikmenn sem eru búnir að fá nóg og vilja komast í burtu.

Margir leikmenn United eru sagðir lítt hrifnir af þjálfaraaðferðum Rangnick og hafa ekki trú á leikskipulagi hans.

Jesse Lingard, Donny van de Beek, Dean Henderson og Eric Bailly eru meðal þeirra leikmanna sem vilja komast til annars liðs í janúar.

Lingard hefur verið orðaður við Newcastle og West Ham en hann er að renna út á samningi í sumar.

Van de Beek hefur ekki tekist að vinna sér sæti í liðinu, hvorki hjá Solskjær né Rangnick.

Bailly er farinn í Afríkukeppnina með Fílabeinsströndinni en hann hefur lítið fengið að spila með United í vetur.

Henderson hefur lengi verið varamarkvörður David de Gea og þarf nauðsynlega að fá að fara að spila. Hann er að berjast um sæti í HM-hópi Englands og þarf mínútur, mögulega hjá Newcastle.

Heimildarmaður Mirror segir ástandið í klefanum sé ekki gott og andrúmsloftið hjá félaginu er slæmt. Það lítur því út fyrir frekari vandræði hjá félaginu á næstunni.

United er í sjöunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar en næsti leikur liðsins er bikarleikur á móti Aston Villa á Old Trafford um næstu helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×