Fótbolti

Erik­sen stefnir á að taka þátt á HM í Katar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Christian Eriksen stefnir á að taka þátt á HM sem fram fer í Katar undir lok árs.
Christian Eriksen stefnir á að taka þátt á HM sem fram fer í Katar undir lok árs. EPA-EFE/Friedemann Vogel

Christian Eriksen hefur ekki spilað fótbolta síðan hann hneig niður í leik Danmerkur og Finnlands á EM í sumar. Þrátt fyrir að hafa farið í hjartastopp á tæknilega séð dáið í nokkrar mínútur þann örlagaríka dag ætlar Eriksen sér samt að taka þátt á HM síðar á þessu ári.

Eriksen var leikmaður Inter Milan er hann hneig niður í sumar. Hann fékk ígræddan í sig gangráð eftir atvikið hroðalega en sökum þess má hann ekki spila á Ítalíu. Hann hefur því verið án félags en virðist ekki af baki dottinn og stefnir á að finna sér nýtt lið nú í janúar.

Eriksen var í viðtali hjá danska miðlinum DR þar sem hann ræddi meðal annars framtíðaráform sín.

„Ég stefni á HM í Katar. Það hefur verið í forgangi hjá mér allan þennan tíma. Hvort ég verði valinn þegar þar að kemur er annað mál, hvort ég nái að spila á nýjan leik – það er annað mál. En aðalmarkmiðið hefur alltaf verið að snúa aftur,“ segir Eriksen í viðtalinu en hann hefur sjálfur birt brot úr því á samfélagsmiðlum sínum.

Einnig kemur fram að hjartað í Eriksen hafi ekki verið til trafala síðan í sumar og allar rannsóknir benda til þess að ekkert sé því til fyrirstöðu að hann haldi áfram að spila fótbolta. Hvar það á svo eftir að vera verður einfaldlega að koma í ljós.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×