Fótbolti

Agla María semur við Häcken

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Agla María hefur verið frábær með Blikum undanfarin ár.
Agla María hefur verið frábær með Blikum undanfarin ár. Vísir/Hulda Margrét

Íslenska landsliðskonan Agla María Albertsdóttir hefur gert þriggja ára samning við sænska úrvalsdeildarfélagið BK Häcken.

Agla María hefur verið lykilmaður hjá Breiðabliki undanfarin ár en skellir sér nú út í atvinnumennsku. Häcken segir frá nýjasta leikmanni sínum á miðlum félagsins í dag.

Agla María hefur verið stoðsendingahæsti leikmaður Pepsi Max deildar kvenna undanfarin tvö ár og hefur komið að 57 mörkum í síðustu 33 deildarleikjum sínum með Blikum.

Agla María var með 12 mörk og 14 stoðsendingar í Pepsi Max deild kvenna í fyrra og er alls með 56 mörk í 111 leikjum í efstu deild.

„Ég er sókndjarfur leikmaður sem vill vera með boltann við fæturna og gera eitthvað með hann,“ sagði Agla María Albertsdóttir þegar heimasíða Häcken bað hana um að lýsa sér sem leikmanni.

„Það sem réði úrslitum fyrir mig var að það er mikil fagmennska hjá félaginu og leikmennirnir í liðinu henta mér. Þó að þær enduðu í öðru sæti á síðasta tímabili þá voru þær mjög sannfærandi í mörgum leikjum. Þetta er lið sem vil spila ofarlega á vellinum og halda boltanum,“ sagði Agla María.

„Ég vil þróa mig sem leikmann og mér finnst ég geta bætt mig mikið. Markmið mitt með þessu liði er alveg eins og með Breiðabliki á Íslandi - að vinna alla leiki. Ég ólst upp við það að markmiðið er alltaf að standa uppi sem sigurvegari í lok tímabilsins,“ sagði Agla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×