Erlent

Máli N­e­vermind-barnsins vísað frá dómi

Atli Ísleifsson skrifar
Nevermind kom út árið 1991.
Nevermind kom út árið 1991.

Dómstóll í Bandaríkjunum hefur vísað máli hins þrítuga Spencer Elden, sem var á umslagi Nevermind, plötu Nirvana frá árinu 1991, frá dómi. Elden hafði krafið meðlimi sveitarinnar um háar fjárhæðir þar sem hann sagði umslagið jafngilda barnaklámi.

Elden krafði eftirlifandi liðsmenn sveitarinnar, þá Dave Grohl og Krist Novoselic, auk Courtney Love, ekkju söngvarans Kurt Cobain og fleiri sem tengjast hljómsveitinni, um 150 þúsund dala frá hverjum og einum sem nefndur var í lögsókninni, eða um 20 milljónir króna.

Plötumslagið er eitt af þekktari plötuumslögum tónlistarsögunnar, en á því má sjá naktan Eden í sundlaug, með augun á dollaraseðli sem kræktur er í öngul. Vildi Elden meina að þar sem sæist í getnaðarlim hans og seðill væri á myndinni mætti líta svo á að barnið á myndinni starfi í kynlífsiðnaði (e. sex worker).

Elden vildi meina að myndin hafi valdið honum miklu og varanlegu andlegu tjóni og að þetta hafi takmarkað möguleika hans á vinnumarkaði, að því er segir í frétt BBC.

Lögmenn Nirvana gáfu lítið fyrir lögsöknina og fullyrðingar um að um barnaklám væri að ræða. Vitleysa væri að halda því fram að allir væru með eintak af plötunni heima hjá sér væru með barnaklám í fórum sínum. Þá bentu þeir á að allt þar til nýlega hafi Elden notið þess að vera „Nirvana-barnið“. Þannig hafi hann látið endurskapa myndina á fullorðinsárum, gegn greiðslu. Auk bentu þeir á að brotið, ef þetta væri þá brot, væri fyrnt.

Elden var með frest til 30. desember til að bregðast við röksemdum lögmanna Nirvana. Slíkt var ekki gert og ákvað dómari því að vísa málinu frá.


Tengdar fréttir

Nakta barnið á Nevermind vill tugi milljóna frá Nirvana

Bandaríkjamaðurinn Spencer Eden, sem helst er þekktur fyrir að vera nakta barnið á plötuumslagi meistarastykkis hljómsveitarinnar Nirvana, Nevermind, hefur krafið hljómsveitina um háar fjárhæðir. Hann segir myndina jafngilda barnaklámi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×