Enski boltinn

Carra um brot Mane: Þetta er verra en gult spjald en samt ekki rautt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sadio Mane fékk að klára leikinn á móti Chelsea í gær og menn voru ósammála um réttmæti þess.
Sadio Mane fékk að klára leikinn á móti Chelsea í gær og menn voru ósammála um réttmæti þess. EPA-EFE/VICKIE FLORES

Liverpool liðið hefði auðveldlega getað lent manni færri eftir aðeins nokkra sekúndna leik í stórleiknum á móti Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Umfjöllunin eftir leikinn snerist því mikið um brot Sadio Mane á Cesar Azpilicueta eftir aðeins sex sekúndna leik.

Mane slapp með gult spjald en Chelsea menn voru mjög ósáttir með það. Liverpool komst í kjölfarið í 2-0 en Chelsea jafnaði metin með tveimur mörkum á stuttum tíma undir lok fyrri hálfleiks.

Leiknum lauk siðan með 2-2 jafntefli og eini sigurvegarinn var því topplið Manchester City sem er að stinga af. Chelsea menn hefðu verið í allt annarri stöðu manni fleiri í 89 mínútur plús.

Gamli Liverpool maðurinn Jamie Carragher ræddi atvikið með Mane eftir leikinn og það er óhætt að segja að Liverpool hjartað hafi slegið ört hjá honum þar.

„Þetta er verra en gult spjald en held samt að þetta sé samt ekki rautt spjald,“ sagði Jamie Carragher og Jimmy Floyd Hasselbaink var hneykslaður.

„Er þér alvara,“ spurði Hasselbaink augljóslega á því að Mane hafi átt að fara mjög snemma í sturtu. Carragher svaraði já.

„Ertu með Liverpool hattinn á þér eða fótbolta hattinn“ spurði Hasselbaink. Carragher rifjaði þá upp atvik með Mason Mont sem fór í VAR og var ekki rautt spjald að hans mati.

„Það var örugglega ekki rautt spjald. Þetta er hins vegar rautt spjald og það skiptir engu máli þótt að það séu bara sex sekúndur liðnar af leiknum,“ sagði Hasselbaink.

Það má sjá umræðuna hér fyrir ofan og fyrir neðan má síðan sjá ósáttan Cesar Azpilicueta ræða atvikið strax eftir leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×