Innlent

Jafnlöng röð í sýnatöku og áður

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Röðin í sýnatöku hefur verið gríðarlega löng í morgun.
Röðin í sýnatöku hefur verið gríðarlega löng í morgun. Aðsend/Tryggvi Rafn

Röðin í sýnatöku hjá heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu á Suðurlandsbraut hefur verið löng í morgun en sjónarvottar segja hana ná alla leið upp í Ármúla. Margir hafi þurft að bíða í tæpa tvo klukkutíma. Tryggvi Rafn, sem er með hreyfihömlun, segist hafa verið sendur aftast í röðina en forgangur er almennt veittur þeim, sem á því þurfa að halda.

Tryggvi Rafn Tómasson var staddur í sýnatökuröðinni í dag. Hann segist hafa beðið í rúman einn og hálfan klukkutíma og var óhress með ástandið: „Ég er með hreyfihömlun og viðgert ökklabrot og átt mjög erfitt með að standa í þessari röð. Ég vissi af þessum forgangi en þurfti frá að hverfa og var sagt að fara aftast í röðina.“

Ingibjörg Salóme Steindórsdóttir, verkefnastjóri sýnatöku hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir að þeir sem eru mikið veikir eða þurfa af einhverjum ástæðum að fara fram fyrir röðina fái það almennt. Það sé rík áhersla á það meðal starfsmanna að þeir sem eru mikið veikir eða fatlaðir eigi að fá að fara fram fyrir röðina.

 „Ég skil ekki alveg út af hverju hann hefur ekki mátt fara fram fyrir. Allir þeir sem eiga erfitt með að vera í röðinni, til dæmis vegna sjúkdóms eða fötlunar, eða ef við erum með lítil börn eða [einstaklingar] eru mjög veikir, þá fær fólk að fara fram fyrir,“ segir Ingibjörg.

Gríðarmikil ásókn í sýnatöku í dag

„Það eru bókaðir um fjögur þúsund manns í sýnatöku þannig að við erum búin að vera að bæta við fólki og opna og á öðrum stað, bara til þess að reyna að vinna á þessu. En þegar þetta eru svona ofboðslega margir á stuttum tíma þá verður mikil röð,“ segir Ingibjörg.

Ingibjörg segir að upp úr hádegi í dag hafi verið búið að taka um 3.000 sýni til samanburðar voru alls tekin 4.600 sýni í gær. Þá var opið í átta klukkutíma. Starfsfólk sé að reyna sitt besta en rosaleg aðsókn hefur verið í hraðpróf í dag. Þá hefur mannekla sett strik í reikninginn en einhverjir starfsmenn hafa þurft að fara í sóttkví eða einangrun. Nú er verið að reyna að manna fleiri stöðugildi til að mæta álagi næstu daga.

Opið verður frá 12-15 á morgun, nýársdag, en eingöngu verður opið í einkennasýnatöku og fyrir þá sem eru í sóttkví: „Við verðum bara að biðja fólk um að sýna þolinmæði, við erum að reyna okkar allra besta,“ segir Ingibjörg og biður fólk um að mæta á tilsettum tíma. Mjög margir mæti á slaginu átta, eða fyrr, og þá myndast fljótt röð. Mæti fólk á sínum tíma ætti röðin að dreifast betur yfir daginn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×