Slökkviliðið varaði við notkun flugelda á gróðurmiklum svæðum fyrr í vikunni en þurrt hefur verið víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu. Oft þarf ekki nema litla glóð úr flugeld, til að kveikja mikinn eld.
Slökkviliðið kvatt á vettvang í Kópavoginum skömmu fyrir klukkan ellefu í gærkvöldi vegna elds í gámi. Varðstjóri hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins segir í samtali við fréttastofu að líklegt sé að kveikt hafi verið í gáminum með flugeldum. Slökkviliðið biður landsmenn um að „hætta að kveikja í gámum,“ enda hafi slökkviliðsmenn í nægu að snúast þessa dagana.
Lögreglu barst tilkynning um umferðarslys í Mosfellsbæ skömmu fyrir eitt í gærnótt en ökumaðurinn er grunaður um ölvun við akstur. Hann var fluttur til aðhlynningar á bráðamóttöku og í kjölfarið vistaður í fangageymslu.
Fleiri virðast hafa drukkið of mikið í gærkvöldi en lögreglu var tilkynnt um „ofurölvaða“ konu í miðborginni í gærnótt. Konan fékk að leita skýlis í fangageymslu. Skömmu síðar fór lögregla í sambærilegt útkall en þar kvaðst ölvaður maður ekki hafa í nein hús að vernda. Hann bað um að fá að gista í fangageymslu, sem hann fékk.
Þá barst lögreglu tilkynning um minniháttar eignaspjöll í Breiðholtinu og um tveimur tímum síðar fór lögregla í annað útkall í sama hverfi vegna líkamsárásar. Meiðsli eru sögð hafa verið minniháttar.
Í miðborginni var tilkynnt um rúðubrot klukkan hálf níu í gærkvöldi en sökudólgurinn er enn ófundinn. Tilkynnt var um innbrot í verslun í sama hverfi skömmu eftir klukkan fjögur í nótt, en ekki er vitað hverju var stolið. Þetta segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.