Íslenski boltinn

Matti vill ekki til Noregs þrátt fyrir spennandi tilboð

Sindri Sverrisson skrifar
Matthías Vilhjálmsson verður áfram í eldlínunni hjá FH næsta sumar og vill ná árangri undir stjórn síns gamla þjálfara, Ólafs Jóhannessonar.
Matthías Vilhjálmsson verður áfram í eldlínunni hjá FH næsta sumar og vill ná árangri undir stjórn síns gamla þjálfara, Ólafs Jóhannessonar. vísir/hulda margrét

Matthías Vilhjálmsson, leikmaður knattspyrnuliðs FH, hefur hafnað starfstilboði í Noregi þar sem hann vill ekki leggja skóna á hilluna alveg strax.

Matthías fékk tilboð um að verða aðstoðarþjálfari úrvalsdeildarfélagsins Vålerenga, samkvæmt frétt 433.is. Þar kveðst Matthías líta á tækifærið sem honum bauðst sem flotta viðurkenningu en að hann vilji halda áfram að spila fyrir FH og ná árangri á nýjan leik með félaginu.

Matthías, sem verður 35 ára í næsta mánuði, sneri aftur til FH fyrir síðustu leiktíð eftir afar farsæla dvöl í Noregi. 

Ísfirðingurinn varð fjórum sinnum Noregsmeistari og þrisvar norskur bikarmeistari með Rosenborg, og lék svo tvö tímabil með Vålerenga áður en hann sneri heim til Íslands. Ljóst er að þar hefur hann heillað forráðamenn Vålerenga með fleiru en eigin hæfileikum innan vallar, en hann mun ekki snúa aftur til starfa þar að sinni.

Vålerenga gekk nýverið frá kaupum á miðverðinum Brynjari Inga Bjarnasyni frá Lecce á Ítalíu. Viðar Örn Kjartansson kom til félagsins haustið 2020 og er með samning sem gildir út árið 2023.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.