Innlent

Mögnuð tólf ára söngstelpa á Selfossi

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Bryndís Embla er ekki búin að ákveða hvað hún vill verða þegar hún verður stór en hún er viss um að hún muni syngja í kór áfram.
Bryndís Embla er ekki búin að ákveða hvað hún vill verða þegar hún verður stór en hún er viss um að hún muni syngja í kór áfram. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Þrátt fyrir að Bryndís Embla Einarsdóttir á Selfossi sé ekki nema tólf ára gömul þá hefur hún sungið í kórum í fimm ár. Hún hefur vakið athygli fyrir fallega rödd og er fengin til að syngja við hin ýmsu tækifæri. Henni finnst „Faðir vorið“ fallegasta lagið, sem hún syngur.

Það má segja að Bryndís Embla, sé alin upp í Selfosskirkju þegar söngur er annars vegar því hún var í barnakór kirkjunnar í nokkur ár og syngur nú með unglingakórnum. Edit Molnar hefur alltaf verið stjórnandi og undirleikari þar sem hún hefur sungið á vegum kirkjunnar.

„Ég er búin að vera í kór í fimm ár. Ég var fyrst í barnaskórnum þegar ég var í þriðja bekk og síðan fór ég í unglingakórinn í fimmta bekk og já, ég er bara enn þá í kór. Þetta er alltaf jafn skemmtilegt enda er Edit svo góð og skemmtilegt,“ segir Bryndís Embla.

En af hverju er Bryndís Embla svona góð að syngja og með svona fallega rödd?

„Ég held að það sé bara í fjölskyldunni minni, báðar ömmurnar mínar voru í kór og komu síðan í kirkjukórinn. Ég er ekki alveg búin að ákveða hvort ég verð söngkona þegar ég verð stór en ég er viss um að ég muni syngja í kór.“

Bryndís Embla Einarsdóttir, tólf ára stelpa á Selfossi, sem hefur vakið mikla athygli fyrir söng sinn og fallega rödd. Hér er hún að syngja í kirkjunni með Edit Molnar, undirleikara og stjórnanda í Selfosskirkju.Magnús Hlynur Hreiðarsson

„Faðir vorið“ er það lag, sem er í mestu uppáhaldi hjá Bryndísi Emblu, sem hún syngur. En fer hún sjálf með "Faðir vorið" á kvöldin?

„Ekki alltaf en þegar mér líður þannig að ég þurfi að gera það þá geri ég það.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×