Fótbolti

Arnór á flöskuborði með Mbappé

Sindri Sverrisson skrifar
Kylian Mbappé var heiðraður sem knattspyrnumaður ársins á verðlaunahófi í Dúbaí í gærkvöld og virðist svo hafa hitt Arnór Sigurðsson í gleðskap síðar um kvöldið.
Kylian Mbappé var heiðraður sem knattspyrnumaður ársins á verðlaunahófi í Dúbaí í gærkvöld og virðist svo hafa hitt Arnór Sigurðsson í gleðskap síðar um kvöldið. Getty

Íslenski landsliðsmaðurinn Arnór Sigurðsson djammaði með einni skærustu íþróttastjörnum heims í Dúbaí í nótt.

Arnór sagði stoltur frá því á Twitter í nótt að nú ætti hann það á ferilskránni að hafa deilt flöskuborði með kollega sínum úr knattspyrnuheiminum, Frakkanum Kylian Mbappé.

Hinn 22 ára gamli Arnór er nú í jólafríi en hann er leikmaður Venezia á Ítalíu og lék með liðinu í 3-1 tapinu gegn Lazio 22. desember, í síðasta leik fyrir jól. Næsti leikur liðsins er gegn Salernitana 6. janúar.

Mbappé var í Dúbaí til að taka við verðlaunum sem besti knattspyrnumaður ársins á Globe Soccer verðlaunahátíðinni.

Mbappé, sem varð 23 ára rétt fyrir jól, er líkt og Arnór í jólafríi en næsti leikur PSG er 3. janúar. 

Mbappé er markahæstur hjá PSG á leiktíðinni með níu mörk í frönsku 1. deildinni, tvö mörk í bikarnum og fjögur í Meistaradeild Evrópu. Hann varð markakóngur í Frakklandi á síðustu leiktíð með 27 mörk í 31 leik.

Arnór er hjá Venezia að láni frá CSKA Moskvu en hann er samningsbundinn rússneska félaginu til sumarsins 2024. Hann á að baki 16 A-landsleiki en var ekki í íslenska landsliðshópnum í síðustu tveimur verkefnum þess á árinu sem er að líða; leikjunum í undankeppni HM í október og nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×