Innlent

Á ekki von á eins langri röð í sýnatöku í dag

Eiður Þór Árnason skrifar
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Vísir/Vilhelm

Um þrjú þúsund einstaklingar voru skráðir í PCR-sýnatöku á Suðurlandsbraut í morgun og um þúsund í hraðpróf. Langar raðir mynduðust í sýnatöku yfir hátíðisdagana en Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins á ekki von á eins mikilli bið í dag.

„Þetta lítur nú bara ágætlega út í dag, það á að vera ágætis mönnun. Við lentum í veikindum í gær þannig að við fórum hölt af stað því það tók tíma að kalla út fólk. Staðan er betri í dag svo þetta ætti að renna ljúft í gegn en þetta getur verið hverfult.“

Um 2.700 sýni voru tekin í gær og þurftu sumir að bíða í vel á annan tíma eftir því að komast í PCR-einkennasýnatöku. Ragnheiður segir það einnig breyta miklu í dag að nú verði sýnatakan opin lengur en yfir jólin.

Til greina kemur að færa sýnatökuna annað

Þessa dagana er unnið að endurskoðun á framtíðarfyrirkomulagi Covid-sýnatöku hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Starfstöðin við Suðurlandsbraut hefur ráðið illa við stærstu dagana að undanförnu sem virðast verða sífellt stærri.

„Það er verið að skoða ýmsa möguleika. Það er spurning hvort við bætum við sýnatökustað, færum okkur eða minnkum hraðprófin hjá okkur og einblínum meira á PCR. Það er verið að skoða alla möguleika núna en ekkert er ákveðið,“ segir Ragnheiður.

Til standi að vikuna í þessar umræður og sjá hvernig þróunin verður næstu daga.

„Þetta er náttúrulega aða stefna hraðbyr upp á við og við erum svolítið að vega og meta hvern dag hvernig við bregðumst við.“


Tengdar fréttir

Líklega þriðji hver smitaður í sögulegri röð

Of snemmt er að draga ályktanir um að omíkron-afbrigðið muni ekki valda sjúkrahúskerfinu þungum búsifjum að sögn yfirlögregluþjóns. Veikt fólk beið úti tímum saman eftir sýnatöku á Suðurlandsbraut í dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×