Lífið

Frægir fjölguðu sér árið 2021

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Brot af þeim þekktu Íslendingum sem eignuðust börn á árinu 2021.
Brot af þeim þekktu Íslendingum sem eignuðust börn á árinu 2021. Samsett

Það er ávallt mikið gleðiefni þegar börn koma í heiminn. Lífið hefur greint reglulega frá því þegar þekktir einstaklingar eignast börn. Hér að neðan má sjá yfirferð yfir nokkur kríli sem komu í heiminn á árinu 2021 og Vísir greindi frá.

Landsliðsmaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson og lögfræðingurinn Hólmfríður Björnsdóttir eignuðust sitt annað barn í janúar.

Jóhann og Hólmfríður hafa verið trúlofuð frá því í maí 2018 og eiga þau dótturina Írisi fyrir sem fæddist árið 2016. Hólmfríður og Jóhann eru búsett á Bretlandi en Jóhann er þar atvinnumaður í knattspyrnu með Burnley í ensku úrvalsdeildinni.

„Sonur minn fæddist í morgun og við skoruðum þrjú mörk í kvöld. Þvílíkur dagur sem þetta var,“ skrifaði Jóhann í Instagram-færslunni þar sem hann tilkynnti fæðingu sonarins.

Tónlistarmaðurinn Valdimar Guðmundsson og Anna Björk Sigurjónsdóttir, hjúkrunarnemi og flugfreyja hjá Icelandair, eru í skýjunum eftir að nýr sonur þeirra mætti með hvelli í heiminn í sumar

Drengurinn fékk nafnið Sigurjón Tumi.

Ultra maraþon hlauparinn og næringarfræðingurinn Elísabet Margeirsdóttir og útivistarkappinn Páll Ólafsson eignuðust son í febrúar. Elísabet greindi frá gleðifréttunum á Facebook en drengurinn kom í heiminn tveimur vikum fyrir settan dag.

Kvikmyndagerðarkonan Ísold Uggadóttir og sambýliskona hennar Una Lind Hauksdóttir eignuðust sitt fyrsta barn saman.

„Þann 18. ágúst 2021 kom þessi litla undravera okkar í heiminn, á afmælisdegi Reykjavíkurborgar,“ skrifaði Ísold í færslu á Facebook.

„Mæður hennar eru hugfangnar af fagra, athugula barninu sínu, sem fæddist smátt en þó svo kraftmikið og áræðið. Þær hlakka til að kynna hana fyrir heiminum og heiminn fyrir henni.“

Stúlkan hefur nú fengið nafnið Röskva.

Píanóleikarinn Víkingur Heiðar Ólafsson og fréttamaðurinn Halla Oddný Magnúsdóttir eignuðust sitt annað barn í maí.

„Tíminn líður eins og í mjólkursæludraumi - allt í einu er komin heil vika síðan þessi dáðadrengur fæddist. Hraustur og veglegur eins og stóri bróðir, vær og yndislegur. Við erum öll yfir okkur ástfangin af honum,“ skrifaði Halla í færslu á Facebook.

Fyrir áttu þau drenginn Ólaf Magnús.

Auðunn Blöndal og Rakel Þormarsdóttir eignuðust annan dreng í maí á þessu ári. 

„Það tók okkur 18 mánuði að verða vísitölufjölskylda,“ skrifaði fjölmiðlamaðurinn í færslu á Facebook Á síðasta ári kom Theódór Sverrir Blöndal í heiminn og einu á hálfu ári seinna fæddist bróðir hans. Drengurinn hefur fengið nafnið Matteó Orri Blöndal.

Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði í knattspyrnu, og Árni Vilhjálmsson, leikmaður Breiðabliks, eignuðust son í nóvember.

„16.11.21 Þegar allt breyttist til hins betra!“ skrifaði Sara á samfélagsmiðla. 

Tónlistarmaðurinn Logi Pedro og Hallveig Hafstað Haraldsdóttir eignuðust dreng í ágúst.

„Ég kem því bara ekki í orð hvað ég er stoltur af Hallveigu. Elsku hjartað mitt. Ótrúleg, sterk og mögnuð. Ég elska þig ástin mín,“ skrifaði Logi á samfélagsmiðla. 

Fyrir á Logi einn dreng og af orðum hans að dæma er fjölskyldan ánægð með viðbótina. „Og nú erum við loksins orðin fjögur,“ segir hann.

Grín­istinn Sóli Hólm og fjöl­miðla­konan Viktoría Her­manns­dóttir eignuðust „gull­fal­legan og ak­feitan“ dreng í júní.  Sóli orðaði þetta svona þegar hann sagði frá að­dragandanum á Face­book en drengurinn var fæddur á Akra­nesi vegna mikilla anna á fæðingar­deildinni á Hring­braut.

„Sagan er þannig að ekki var hægt að hefja gang­setningu á Viktoríu í gær­morgun vegna mikilla anna á fæðingar­deildinni á Hring­braut og þar sem hún var komin 13 daga fram yfir settan dag vildum við ekki tefja þetta meira. Því tókum við þá skyndi­á­kvörðun í gær­morgun að Viktoría myndi fara í gang­setningu á Akra­nesi og fæða barnið þar,“ segir Sóli.

Þau fóru því upp á Skaga þar sem gang­setningin var hafin. Þau fengu þá að fara heim en áttu að mæta aftur upp á Skaga síðar um kvöldið. Klukkan hálf fimm hafi Viktoría þó misst vatnið og þau brunað af stað.

„Á Kjalar­nesinu var okkur þó hætt að lítast á blikuna og þar sem þetta stóð tæpt og ég einkar lög­hlýðinn öku­maður og borgari al­mennt, sáum við þann kostinn vænstan í sam­ráði við 112 að fá sjúkra­bíl til að koma á móti okkur við Hval­fjarðar­göngin svo barnið myndi nú ekki fæðast úti í veg­kanti,“ skrifar Sóli.

Klukku­stund síðar var „stór og pattara­legur drengur kominn í heiminn“ sem nú hefur fengið nafnið Hermann Flóki. Drengurinn er þeirra annað barn sem þau eiga saman en fyrir áttu þau dótturina Hólm­fríði Rósu sem fæddist árið 2019. Fyrir átti Viktoría dótturina Birtu og Sóli drengina Bald­vin Tómas og Matthías. 

Hjónin Alexandra Helga Ívarsdóttir  og Gylfi Þór Sigurðsson, knattspyrnumaður, eignuðust stúlku í maí. Stúlkan fékk nafnið Melrós Mía Gylfadóttir og er fyrsta barn þeirra hjóna.

Fótboltakappinn Hjörtur Hermannsson og kærasta hans Bera Tryggvadóttir eignuðust sitt fyrsta barn í nóvember. Drengurinn hefur hlotið nafnið Högni Hjartarson.

Leikarinn Aron Már Ólafsson, betur þekktur sem Aron Mola og unnusta hans Hildur Skúladóttir, eignuðust annan dreng í október. Fyrir áttu þau Birni Blæ.

Þau settu svo af stað skemmtilega gátu á samfélagsmiðlum þar sem fólk var hvatt til að giska á nafn drengsins

Fjölmiðlamaðurinn Frosti Logason og konan hans Helga Gabríela Sigurðar eignuðust sitt annað barn í júlí. Drengurinn var þegar í stað nefndur Máni Frostason í höfuðið á Mána Péturssyni, sem fer með umsjón útvarpsþáttanna Harmageddon á X-inu ásamt Frosta.

„Já lífið er sannarlega dásamlegt kæru vinir. Máni Frostason er kominn í heiminn og við fjölskyldan öll í sæluvímu. Fæðingin var ævintýri líkust þar sem ástin mín hún Helga Gabríela stóð sig eins og hetja enda raunveruleg ofurkona sem gerir allt svo vel eins og frægt er orðið,“ skrifaði Frosti í færslu á Facebook.

Söng- og tónlistarkonan Sigríður Thorlacius eignaðist sitt fyrsta barn, dreng, í september. 

Í tilkynningu á Facebook sagði Sigríður draumaprinsinn hafa komið í heiminn aðeins fyrr en áætlað var og með „ögn dramatískum hætti“, eins og hún orðar það.

Egill Einarsson og Gurrý Jónsdóttir eignuðust sitt annað barn í maí. Drengurinn fékk nafnið Aron Leó. Fyrir áttu þau dótturina Evu Malen Egilsdóttur. 

„Gríslingurinn var óþolinmóður og ákvað að mæta í heiminn aðeins á undan áætlun. Þetta gerðist frekar hratt. Gurrý vakti mig 04:15 í nótt. Löbbuðum inn á spítalann 05:20 og drengurinn fæddur 06:41. Alvöru tempó. Erum komin heim og Eva Malen ofpeppuð fékk loksins að hitta litla bróðir. Móður og barni heilsast vel,“ skrifaði Egill í færslu á Instagram.

Söngkonan Elísabet Ormslev og Sindri Þór Kárason hljóðvinnslumaður eignuðust dreng 11. desember. Elísabet birti nokkrar myndir af frumburðinum á samfélagsmiðlum.

„Tíu fingur, tíu tær og alveg fullkominn. Velkominn í heiminn draumadrengur,“ skrifaði söngdívan við myndirnar. Elísabet og Sindri byrjuðu saman í lok síðasta árs. Þetta er fyrsta barn Elísabetar en Sindri á barn fyrir úr fyrra sambandi. Á meðgöngunni grínaðist Elísabet með að það yrði erfitt að velja ættarnafn fyrir barnið.

„Michelsen, Ormslev, Möller, Petersen eða Knudsen koma til greina.“

Áhrifavaldurinn Arna Ýr Jónsdóttir og kærastinn hennar Vignir Bollason eignuðust sitt annað barn í júní. Fæðingin var heimafæðing og kom sonurinn í heiminn í rósabaði í uppblásinni sundlaug heima í stofu.

„Öllum líður vel, fæðingin tók bara þrjár til fjórar klukkustundir og hann er átján merkur.“

Drengurinn hefur fengið nafnið Nói Hilmar. 

Athafnamaðurinn Skúli Mogensen og innanhúshönnuðurinn Gríma Björg Thorarensen eignuðust son í september. Fyrir eiga þau soninn Jaka sem fæddist í maí á síðasta ári og svo á Skúli þrjú börn frá fyrra hjónabandi.

„Gæti ekki verið stoltari eða ánægðari með þennan glæsilega og heilbrigða gullmola sem kom í heiminn í gær! Allt gekk eins og í sögu og Gríma algjör hetja að vanda!!! Fullkomið þakklæti! Takk,“ skrifaði Skúlí á samfélagsmiðla. 

Hjónin Karitas Sveinsdóttir og Hafsteinn Júlíusson, sem eiga og reka Haf Studio og Haf Store, eignuðust í júlí sitt annað barn, litla stúlku.

„12 merkur af eintómri gleði og hamingju,“ skrifaði móðirin en litla stúlkan kom í heiminn fyrir tímann. Hún hefur fengið nafnið Margrét.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, eignaðist son í febrúar.

Drengurinn er frumburður hennar og Rafal Orpel. Hann hefur fengið nafnið Antoni Örn Orpel.

„Allt er eins og það á að vera,“ skrifar Þórhildur Sunna, sem hafði beðið spennt eftir syninum.


Tengdar fréttir

Frægir fundu ástina árið 2021

Á hverju ári greinir Vísir ávallt frá nýjum pörum og þá sérstaklega kemur að þekktum Íslendingum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×