Enski boltinn

Vill fá fimm skiptingar í ensku úrvalsdeildina á ný

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Thomas Tuchel vill fjölga skiptingum í ensku úrvalsdeildinni á ný.
Thomas Tuchel vill fjölga skiptingum í ensku úrvalsdeildinni á ný. EPA-EFE/FACUNDO ARRIZABALAGA

Thomas Tuchel, knattspyrnustjóri Chelsea, vill að leyfilegt verði að gera fimm skiptingar í leik í ensku úrvalsdeildinni á ný.

Á síðustu leiktíð máttu stjórar gera fimm breytingar á liðum sínum í hverjum leik, en sú regla var sett á til að vernda leikmenn gegn þreytu og álagi vegna kórónuveirufaraldursins.

Nú á þessari leiktíð var hins vegar gamla reglan tekin upp á ný þar sem að einungis þrjár skiptingar eru leyfðar í hverjum leik.

Eftir að fjöldi smita hafa greinst innan ensku úrvalsdeildarinnar á undanförnum dögum og vikum, og þar af leiðandi hefur 13 leikjum verið frestað, telur Thomas Tuchel að það væri ekki versta hugmyndin að leyfa fimm skiptingar á ný.

„Eins og staðan er núna myndi ég elska það að fimm skiptingar yrðu leyfðar á ný,“ sagði Tuchel.

„Kórónuveiran hefur verið að gera mönnum lífið leitt og fimm skiptingar voru leyfðar til að vernda leikmenn frá henni. Ég tel að staðan sem upp er komin sé mjög alvarleg og erfið. Þannig að ef að við ætlum að halda áfram að spila þá finnst mér að við ættum að leyfa fimm skiptingar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×