Enski boltinn

„Þetta var svolítið eins og að tala við vegg“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Antonio Conte segir að fundurinn milli þjálfara ensku úrvalsdeildarinnar og forráðamanna deildarinnar hafi verið tilgangslaus.
Antonio Conte segir að fundurinn milli þjálfara ensku úrvalsdeildarinnar og forráðamanna deildarinnar hafi verið tilgangslaus. Tottenham Hotspur FC/Tottenham Hotspur FC via Getty Images

Antonio Conte, knattspyrnustjóri Tottenham Hotspur, segir að fundurinn á milli ensku úrvalsdeildarinnar og þjálfara deildarinnar sem haldinn var til að ræða vandræðin í kringum kórónuveirufaraldurinn hafi verið eins og að tala við vegg.

Nú þegar hefur verið ákveðið að fresta þremur leikjum vegna kórónuveirunnar sem áttu að fara fram á morgun. Alls hefur nú 13 leikjum í ensku úrvalsdeildinni verið frestað af þeim sökum á síðustu dögum og vikum. Í seinustu viku greindust 90 jákvæð próf meðal leikmanna og starfsmanna liða deildarinnar, en aldrei áður hafa svo margir greinst á einni viku.

Líkt og aðrir stjórar deildarinnar sat Antonio Conte fyrir svörum blaðamanna á fimmtudaginn fyrir leiki morgundagsins. Hann var spurður út í fundinn sem haldinn var, og þá helst hvort að honum hafi þótt hann vera tímasóun.

„Já, ég held það,“ sagði Conte. „Þetta var svolítið eins og að tala við vegg og af þeim ástæðum ætla ég ekki að fara of mikið út í það hvað var rætt.“

Tottenham situr í sjöunda sæti deildarinnar. Þremur leikjum liðsins hefur verið frestað á tímabilinu, þar af tveimur vegna kórónuveirunnar. Þá var liðinu dæmdur ósigur í lokaleik riðlakeppninnar í Sambandsdeildinni eftir að fjöldi smita greindist innan liðsins sem varð til þess að liðið féll úr leik. Conte segir að þrátt fyrir að lið deildarinnar glími við mismikinn vanda þá hafi verið eins og allt hafi verið ákveðið fyrirfram á fundinum.

„Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá var þetta fundur þar sem að einhverjir þjálfarar reyndu að tala, og reyndu að fá svör og lausnir, en ég held að allt hafi þegar verið ákveðið.“

„Þegar þú ert með vegg fyrir framan þig þá geturðu talað og beðið um allt sem þú vilt, en það er búið að taka allar ákvarðanir,“ sagði Conte að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×