Enski boltinn

Fulham mistókst að auka forskot sitt á toppnum fyrir jól

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Iliman Ndiaye skoraði eina mark leiksins strax á þriðju mínútu.
Iliman Ndiaye skoraði eina mark leiksins strax á þriðju mínútu. George Wood/Getty Images

Fulham og Sheffield United áttust við í seinasta leik ensku 1. deildarinnar fyrir jól, en það voru gestirnir frá Sheffield sem höfðu betur, 0-1.

Iliman Ndiaye kom Sheffield United yfir strax á þriðju mínútu leiksins eftir stoðsendingu frá Oliver Norwood og staðan var 0-1 þegar flautað var til hálfleiks.

Þrátt fyrir mikla yfirburði heimamann í síðari hálfleik tókst þeim ekki að jafna metin og niðurstaðan var 0-1 sigur Sheffield United.

Nú hafa flest lið í ensku 1. deildinni leikið 23 leiki, sem þýðir að tímabilið er hálfnað. Heimamenn í Fulham hefðu eflaust viljað halda upp á jólin með fimm stiga forskot á toppnum, en þurfa að gera sér það að góðu að hafa tveggja stiga forskot á Bournemouth sem situr í öðru sæti. Liðið hafði gert fjögur jafntefli í röð fyrir leik kvöldsins.

Sheffield United hefur hins vegar verið á góðu skriði undanfarið, en þetta var fjórði sigurleikur liðsins í röð. Liðið situr nú í 11. sæti deildarinnar með 32 stig, aðeins þremur stigum á eftir liðunum í fimmta og sjötta sæti, en þriðja til sjötta sæti gefur keppnisrétt í umspili um laust sæti í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×