Enski boltinn

Klopp: Kane hefði getað fótbrotið Robertson

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Klopp átti mörg samtöl við dómarateymið í dag.
Klopp átti mörg samtöl við dómarateymið í dag. vísir/Getty

Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, gerði frammistöðu dómarateymisins að umtalsefni í viðtali eftir 2-2 jafntefli liðsins gegn Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Leikurinn var bráðfjörugur þar sem mistök á báða bóga voru áberandi auk umdeildra dómaraákvarðana.

„Ég sá mikla baráttu frá mínu liði. Við vorum góðir í fyrri hálfleik. Síðari hálfleikur var ekki jafn góður hjá okkur og ég held að álagið undanfarnar vikur sé farið að segja til sín. Þeir voru frískari en við,“ sagði Klopp áður en hann greindi frammistöðu Paul Tierney, dómara leiksins.

„Það voru mörg stór atriði í þessum leik en líklega er betra að spyrja herra Tierney út í þau.“

„Kane átti klárlega að fá rautt spjald. Ég skil rauða spjaldið á Robbo (Robertson). Þetta er ekki gáfuleg tækling en Kane átti klárlega að fá rautt. Það er enginn vafi. Ef Robertson hefði verið með fæturnar á jörðinni hefði hann fótbrotnað.“

„Þeir telja sig þurfa að skoða atvikið með Robertson í VAR. Gott og vel, til þess er VAR. En af hverju var það ekki gert með tæklinguna hjá Kane? Og líka þegar Jota átti að fá víti. Herra Tierney sagði við mig að Diogo hefði sjálfur stöðvað sig því hann hafi viljað sækja brot. Ef þú ætlar að skjóta þá verðuru að stöðva þig. Þú getur ekki gert bæði,“ sagði Klopp, furðu lostinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×