Fótbolti

Ísland í efsta flokki í drættinum í dag

Sindri Sverrisson skrifar
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta leikur í B-deild Þjóðadeildarinnar eftir að hafa verið í A-deild fyrstu tvær leiktíðirnar í þessari nýlegu keppni.
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta leikur í B-deild Þjóðadeildarinnar eftir að hafa verið í A-deild fyrstu tvær leiktíðirnar í þessari nýlegu keppni. vísir/vilhelm

Það skýrist í dag hvaða leikir bíða íslenska karlalandsliðsins í fótbolta á næsta ári þegar dregið verður í nýja keppni af Þjóðadeildinni.

Á næsta ári eru engir leikir í undankeppni EM eða HM á dagskrá. Fótboltaárinu 2022 mun nefnilega ljúka með lokakeppni HM sem fram fer í Katar í nóvember og desember.

Þess í stað á Ísland fyrir höndum heila leiktíð í Þjóðadeildinni þar sem fjórir leikir eru á dagskrá í júní og tveir leikir í september.

Ísland hefur leikið í A-deildinni fyrstu tvær leiktíðirnar af Þjóðadeildinni en endaði í neðsta sæti síns riðils í bæði skiptin (A-deildin var stækkuð eftir fyrstu leiktíðina).

Nú leikur Ísland hins vegar í B-deild og er í efsta styrkleikaflokki ásamt öðrum liðum sem féllu úr A-deild, fyrir dráttinn í Sviss í dag klukkan 17. Þar skýrist hvaða þremur þjóðum Ísland verður með í riðli.

Styrkleikaflokkarnir Í B-deild

Flokkur 1: Úkraína, Svíþjóð, Bosnía-Hersegóvína, ÍSLAND.

Flokkur 2: Finnland, Noregur, Skotland, Rússland.

Flokkur 3: Ísrael, Rúmenía, Serbía, Írland.

Flokkur 4: Slóvenía, Svartfjallaland, Albanía, Armenía.

Ísland getur þó ekki dregist í riðil með bæði Armeníu og Ísrael (eingöngu annarri hvorri þjóðinni ef til þess kemur), vegna lengdar ferðalags.

Það lið sem endar í efsta sæti riðilsins kemst upp í A-deild en neðsta liðið fellur í C-deild.

Áður en að Þjóðadeildinni kemur verða næstu leikir Íslands mögulega vináttulandsleikir fyrir B-landslið í janúar, og svo á opinberum landsleikjadögum FIFA í mars.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.