Innlent

Þeir sem fengu örvunar­skammt eftir Jans­sen fá annan örvunar­skammt

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Börn á aldrinum 12 til 18 ára mega bara fá bóluefnið frá Pfizer.
Börn á aldrinum 12 til 18 ára mega bara fá bóluefnið frá Pfizer. Vísir/Vilhelm

Bóluefnið frá AstraZeneca er búið og verður ekki á boðstólnum þar sem eftir lifir árs. Þeir sem fengu upphaflega bóluefnið frá Janssen og svo örvunarskammt, geta komið í þriðju bólusetninguna fimm mánuðum eftir örvunarskammtinn.

Frá þessu er greint á heimasíðu Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Búið er að boða alla þá sem komnir eru á tíma í desember í örvunarskammt en bólusett verður í Laugardalshöll fram að jólum og milli jóla og nýárs og allir þeir sem enn eiga eftir að mæta í grunnbólusetningu og þeir sem eru komnir á tíma í örvunarskammt eru hvattir til að mæta.

Þeir sem eru 70 ára og eldri geta komið og fengið örvunarskammt ef þrír mánuðir eru liðnir frá seinni skammti. Fyrir aðra eiga að líða fimm mánuðir á milli seinni skammtsins og övunarskammtsins.

Það er ekki nauðsynlegt að framvísa strikamerki til að fá bólusetningu, heldur er nóg að gefa upp kennitölu. Þeir sem eru ekki með íslenska kennitölu þurfa fyrst að skrá sig á síðunni bolusetning.covid.is og bíða eftir staðfestingu áður en þeir mæta.

Börn á aldrinum 12 til 18 ára mega bara fá bóluefnið frá Pfizer og þá eiga karlmenn 39 ára og yngri helst ekki að fá bóluefnið frá Moderna samkvæmt embætti landlæknis og því er mælt með Pfizer fyrir þá.

Þeir sem þurfa bólusetningu út í bíl geta mætt á fimmtudögum og föstudögum. Einfaldast er að hafa fylgdarmann sem getur farið inn og látið vita. Þeir sem koma einir geta hringt í síma 513-5000 til að fá aðstoð.

Bólusett verður alla virka daga milli klukkan 10 og 15, nema 17. desember, á Þorláksmessu, aðfangadag og gamlársdag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×