Innlent

Krabba­meins­fé­lagið greiðir konu með ban­vænt krabba­mein tugi milljóna

Eiður Þór Árnason skrifar
Málið komst upp á síðasta ári. 
Málið komst upp á síðasta ári.  Vísir/Vilhelm

Kona sem greindist með banvænt krabbamein fær greiddar tugi milljóna króna í bætur frá Krabbameinsfélaginu vegna mistaka við leghálsskimun. Þegar meinið loks uppgötvaðist var það ekki lengur skurðtækt.

Greint var frá þessu í kvöldfréttum RÚV en búið er að skrifa undir dómsátt í málinu. Konan, sem er ríflega fimmtug amma, fékk engar athugasemdir í leghálsskimun hjá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins árið 2018 og greindist tveimur árum síðar með ólæknandi leghálskrabbamein. Þá var of seint að senda konuna í aðgerð. Við endurskoðun á sýninu frá 2018 kom í ljós að það hafi verið ranglega greint.

Fram kom í apríl að Embætti landlæknis hafi komist að þeirri niðurstöðu að bæði mannleg og kerfislæg mistök hafi verið gerð í máli konunnar. Mannleg mistök hafi orðið við greiningu sýnisins en ákveðinn þátt innra gæðaeftirlits hefði verið hægt að nýta betur.

Sævar Þór Jónsson, lögmaður konunnar, sagði þá í samtali við fréttastofu að úttektin staðfesti enn frekar að verkferlar og eftirlit með starfsemi Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins hafi ekki verið í lagi.

Vonar að niðurstaðan verði fordæmisgefandi

Upphaflega var greint frá máli konunnar í kvöldfréttum Stöðvar 2 í ágúst í fyrra. Í kjölfar málsins voru rétt tæplega fimm þúsund sýni endurskoðuð hjá Krabbameinsfélaginu og 209 konur kallaðar aftur til frekari skoðunar.

Nokkrar konur sem fengu ranga niðurstöðu í leghálsskimun hjá Krabbameinsfélaginu reyndust vera með það alvarlegar frumubreytingar að þeim var ráðlagt að fara í keiluskurð.

Sævar segir í samtali við RÚV að dómsáttin í máli konunnar sé ásættanleg. Vonar hann að hún verði fordæmisgefandi fyrir mál annarra kvenna sem fengu ranga niðurstöðu úr krabbameinsskimunum hjá Leitarstöðinni.

Sævar upplýsir ekki í samtali við RÚV hver bótafjárhæðin sé nema að hún hlaupi á tugum milljónum króna.


Tengdar fréttir

Mannleg og kerfisleg mistök í máli konunnar

Embætti landlæknis hefur komist að þeirri niðurstöðu að bæði mannleg og kerfisleg mistök hafi verið gerð í máli konu sem greindist með ólæknandi leghálskrabbamein eftir skimun hjá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.